Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:13:17 (6123)

2002-03-13 14:13:17# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:13]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mér finnst eins og stjórnarandstæðingar geri í að reyna að skapa slæma umræðu um það sem verið er að gera fyrir landsbyggðina. (Gripið fram í.) Það er nokkuð ljóst að búið er að setja verulega mikla peninga í að reyna að halda fjarvinnsluverkefnum gangandi úti um allt land, ekki bara af Byggðastofnun og samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar heldur líka vegna ákvarðana Alþingis sjálfs. Alþingi lagði fjármuni að tillögu fjárln. bæði í SMS-fjarvinnslufyrirtækið á Stöðvarfirði og fleiri fjarvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni.

Mér finnst einhvern veginn eins og það gleymist alveg að verið er að vinna að þessu og hjálpa þessum fyrirtækjum til að komast yfir fleiri verkefni, ekki bara frá opinberum aðilum heldur alls staðar að af landinu. Það er heldur ekki svona einfalt að þetta geti allt byggst á einum kanal. Möguleikarnir byggjast á fjölbreytni og opinberar aðilar hafa reynt að hafa það í huga.