Viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:40:51 (6139)

2002-03-13 14:40:51# 127. lþ. 97.2 fundur 590. mál: #A viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Í umræðum um nefndastörf og annað á vegum ríkisins vil ég taka eitt dæmi í framhaldi af þeirri skýrslu og ábendingum sem Ríkisendurskoðun setti nýlega fram. Það snýr að hinu háa Alþingi sem gæti gefið fleirum kost á, sérstaklega landsbyggðarfólki, að taka þátt í nefndastörfum og ganga fyrir nefndir þingsins, svo og e.t.v., og kannski ekki síður, að spara kostnað, þá sérstaklega ferðakostnað. Á vegum Alþingis er, held ég, mjög erfitt að setja á svokallaða fjarfundi. Ef menn vildu kalla til sín einhverja menn, eða konur, úti á landi til fundar og gera það í gegnum fjarfundabúnað er það ákaflega erfitt.

Ég spurðist fyrir um þetta í samgn. um daginn til að ræða tiltekið mál, sjóslys og annað slíkt, þar sem óg óskaði eftir að menn utan af landi kæmu til fundar við nefndina til að veita upplýsingar sem þeir höfðu mjög miklar fram að færa. Mér var tjáð að Alþingi greiddi ekki ferðakostnað og þá spurði ég um fjarfundabúnaðinn. Á honum eru ýmis vandkvæði.

Ég vil, herra forseti, rétt í lokin hvetja hv. forsn., og treysti vel þeim forseta sem situr nú í forsetastóli til að færa það inn í hv. forsn. hvort ekki sé ástæða fyrir Alþingi til að taka upp þessi nýju vinnubrögð.