Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:50:42 (6145)

2002-03-13 14:50:42# 127. lþ. 97.3 fundur 423. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi DrH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Eins og flestum er kunnugt á landsbyggðin mjög í vök að verjast og atvinnuuppbygging er nauðsynleg ef ekki á að verða enn meiri fækkun en orðin er. Störfum til sveita hefur fækkað vegna breytinga á búháttum og ef fólk ætlar sér að búa áfram í hinum dreifðu byggðum þarf það að finna sér verkefni.

Á 123. löggjafarþingi lagði sú sem hér stendur fram till. til þál. um að skipuð yrði nefnd um þriggja fasa rafmagn. Hún var samþykkt en hún fól í sér að gerð yrði úttekt á hve mikið vantar á raflagnir fyrir þriggja fasa rafmagn í landinu, metin þörf atvinnulífsins fyrir það og lagt mat á kostnað til að tryggja öllum landsmönnum aðgang að því. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir þá sem reka stór bú og smáiðnað í sveitum. Fyrir þá yrði mikil bragarbót að alvörurafmagni, þ.e. þriggja fasa í stað eins. Jafnframt er ljóst að ekki hafa allir þörf fyrir þriggja fasa rafmagn og þess vegna þarf að forgangsraða í þessum efnum.

Tilraunir hafa verið gerðar með svokallaða rafhrúta og væri fróðlegt að heyra hvernig þær tilraunir hafa gengið ef hæstv. ráðherra getur sagt okkur frá því.

Kostnaður er mun meiri við allar vélar fyrir eins fasa rafmagn en hinar. Þriggja fasa rafmagn er miklu öruggara rafmagn og íkveikjuhætta af því er miklu minni.

Öll nútímasmíði þarf stöðugt rafmagn, alvörurafmagn. Föstudaginn 14. des. sl. var viðtal í Morgunblaðinu við Kristján Björn Ómarsson sem er 32 ára gamall og frá Villingaholti, og langar mig að vitna í það, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hann stundaði sveitastörfin fram að 15 ára aldri en þá fór hann á sjóinn og er vélstjóramenntaður. Hann var á sjó og starfaði sem vélstjóri til ársins 1996 en hefur síðan þá unnið að uppfinningu sinni. Hann kvaðst vera sem mest í sveitinni á Grund í Villingaholtshreppi þar sem hann er fæddur og uppalinn.``

Og hann segir: ,,,,Ég hefði alveg viljað starfa meira heima á Grund en ekkert þriggja fasa rafmagn er í sveitinni og því ekki hægt að vera með öflugar smíðavélar.`` Hann sagði þessa vöntun á almennilegu rafmagni víða vera hamlandi á landsbyggðinni.``

Honum verður tíðrætt um aðstöðumun frumkvöðla hérlendis samanborið við nágrannalönd. Ég hafði tal af honum í morgun og þá sagði hann mér að á verkstæði í sveitinni þar sem ekki fæst þriggja fasa rafmagn hefði verið keypt ljósavél fyrir á þriðju milljón til að keyra stóra mótora og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hver er niðurstaða nefndar sem skipuð var samkvæmt þingsályktun um þriggja fasa rafmagn sem samþykkt var á Alþingi 10. mars 1999?

2. Hversu margir notendur hafa fengið aðgang að þriggja fasa rafmagni á svæði Rafmagnsveitna ríkisins sl. þrjú ár, flokkað eftir sýslum?