Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:44:52 (6170)

2002-03-13 15:44:52# 127. lþ. 97.6 fundur 536. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Enn einu sinni ræðum við um fjarvinnsluverkefni á landsbyggðinni og því miður fáum við enn að heyra svipuð svör og áður, að lítið hafi áunnist og væri kannski nær að segja að nær ekkert hefði áunnist í þeim efnum.

Herra forseti. Það er misjafnt hversu hreinskilnir hæstv. ráðherrar hafa verið í þessari umræðu. Ég verð að segja hæstv. iðnrh. til hróss að ég held að hún sé sá ráðherra sem hreinskilnastur hefur verið hvað þessi mál varðar vegna þess að ég las á netinu á annars ágætri heimasíðu hæstv. ráðherra, í dagbók hæstv. ráðherra eftir fund á Stöðvarfirði eftirfarandi texta, með leyfi forseta:

,,Miklar væntingar voru byggðar upp af hálfu stjórnvalda ... þótt fáir hafi í raun vitað um hvað þetta snerist.``

Herra forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé af þessu tilefni að óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri örlítið nánar þennan texta sinn þannig að við förum ekki í einhverjar getgátur um við hverja er átt.