Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:46:05 (6171)

2002-03-13 15:46:05# 127. lþ. 97.6 fundur 536. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KVM
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Menn verða að gera sér grein fyrir því að hægt er að vinna heilmörg störf í fjarvinnslu úti á landi en það er eins og áhugann vanti. Sagt hefur verið að stjórnsýslan hafi einfaldlega allt of lítinn áhuga á því að koma þessum verkefnum út á land. En það eru hæstv. ráðherrar sem stjórna í ráðuneytunum og þeir eiga að geta beitt sér af meira afli í þessum málum en raun ber vitni. Það er átakanlegt að taka á móti hverju svarinu af öðru, frá hverjum hæstv. ráðherranum á fætur öðrum við fyrirspurn hv. þm. Kristjáns Möllers. Þau eru frekar dauf, svörin, og lítið hefur orðið af því að verkefni séu komin út á land í þessa fjarvinnslu þannig að það er ekki nema von að menn kveinki sér þessa dagana.