Framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:34:22 (6196)

2002-03-13 18:34:22# 127. lþ. 97.12 fundur 530. mál: #A framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:34]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Enn og aftur leyfi ég mér að taka upp framgang mála hvað varðar byggingarframkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands og það er auðvitað ekki að ástæðulausu því að knýjandi nauðsyn er á að hefja framkvæmdir vegna stöðu húsnæðismála öldrunardeildar sjúkrahússins á Ljósheimum þar sem húsnæði er og hefur um langan tíma verið á margföldum undanþágum svo að starfsemin gæti verið þar áfram og allur aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks geldur þessa ástands og er okkur hreint til vansa.

Lítið hefur verið gert til að verða við þeim kröfum um endurbætur sem hafa komið frá eftirlitsstofnunum ríkisins vegna þess að lengi hefur staðið til að hefja byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið þar sem öldrunardeildin yrði vistuð og mundi það leysa Ljósheima af hólmi, en gert er ráð fyrir að í þeirri nýbyggingu verði um 26 rými fyrir aldraða sjúklinga, nákvæmlega jafnmörg og eru til staðar á Ljósheimum núna. Mér skilst að þörfin á hjúkrunarrými fyrir aldraða hafi verið könnuð áður en þessi ákvörðun var tekin og niðurstaðan var sú að hafa sama fjölda. Þessu eru heimamenn þó ekki að öllu leyti sammála því að í félagsmálaráði Árborgar hafa þessi mál verið rædd og þar telja menn að fjölga þurfi rýmum jafnvel um helming að teknu tilliti til þeirrar fólksfjölgunar sem hefur orðið á staðnum.

Allt sl. ár var til fjárveiting til þess að fara í hönnunarvinnu vegna þessa verkefnis. Um 60 millj. voru ónýttar um áramótin vegna þess að mér skilst að hin valdamikla nefnd, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, hafi ekki þrátt fyrir ítrekuð erindi frá heilbrrn. gefið grænt ljós á að hefja mætti framkvæmdir og því nýttist fjárveitingin ekki og tapaðist heilt ár í vinnu.

Nú skilst mér hins vegar að nefndin hafi samþykkt verkið og 10 millj. fengust á fjárlögum þessa árs þannig að 70 millj. ættu þá að vera til ráðstöfunar og ekkert að vanbúnaði að hefja verkið og er sannarlega kominn tími til því ef heilbrigðisstofnanir í landinu eru skoðaðar dreg ég í efa að finna megi húsnæði í verra ásigkomulagi en Ljósheima.

Það er auðvitað umhugsunarvert, virðulegi forseti, þegar Alþingi hefur ákveðið fjármagn til framkvæmda og viðurkennt þörfina þá geti það dregist mánuðum saman í meðförum þriggja manna nefndar, samstafsnefndar um opinberar framkvæmdir, að fá heimild til að hefja það verk sem Alþingi hefur ákveðið að fara skuli í, heilbrrn. unnið sína vinnu og heimamenn einnig. En þörfin er brýn og það þarf að liggja fyrir hversu langan tíma verkið á að taka og þá sérstaklega hvenær megi vænta þess að starfsemi Ljósheima verði flutt í nýtt húsnæði og því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hver er staðan hvað varðar fyrirhugaðar framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands á Selfossi?

2. Hvenær má vænta þess að starfsemi Ljósheima, öldrunardeildar sjúkrahússins, verði færð í annað húsnæði?