Aðstaða til fjarnáms

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:59:41 (6208)

2002-03-13 18:59:41# 127. lþ. 97.14 fundur 516. mál: #A aðstaða til fjarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:59]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í nýrri byggðaáætlun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram er nokkur áhersla lögð á jöfn tækifæri fólks til að stunda nám, m.a. á háskólastigi, en þar gegnir fjarnámið lykilhlutverki. Á síðustu árum, ekki síst með tilkomu fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, hafa möguleikarnir til að stunda fjarnám stóraukist og mikil aðsókn verið í námið.

Að mínu mati getur fjarnám og góð aðstaða til þess að stunda slíkt nám verið undirstaða þess að viðhalda ákveðnum sterkum byggðakjörnum í landinu og eykur möguleika nágrannabyggðarlaga ef öflug þjónustumiðstöð fyrir fjarkennslu er til staðar sem fullnægir þörfum og eftirspurn íbúa eftir námi. Miðstöðvar gegna því mikilvægu hlutverki en það geta hins vegar verið þær aðstæður að þær nái ekki að sinna hlutverki sínu miðað við fjárveitingar sem þær fá og vegna sérstakra aðstæðna á því svæði sem þeim er ætlað að ná yfir.

Í febrúar barst okkur þingmönnum Suðurkjördæmis afrit af bréfi sem sent var hæstv. menntmrh. undirritað af 13 verðandi hjúkrunarnemum í Vestmannaeyjum, verðandi, ef fullnægjandi aðstöðu til fjarnáms verður komið upp. En í bréfinu er verið að vekja athygli á óviðunandi ástandi í húsnæðismálum fjarnáms í Vestmannaeyjum en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á haustönn 2002 er fyrirhugað að fjarnám í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri hefjist í Vestmannaeyjum. Nú þegar er ljóst að 13 nemendur hafa fengið inngöngu í skólann. Eins og staðan er núna er fjarfundabúnaðurinn staðsettur í tiltölulega litlu herbergi í rannsóknasetrinu hér í Eyjum. Það gefur augaleið að það er erfitt fyrir 13 manns að sitja í fullu námi á degi hverjum í slíkum þrengslum. Jafnframt stunda fleiri nemendur fjarnám frá Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands og Hólaskóla og eru í sömu aðstöðu og hér um ræðir.``

Síðar í bréfinu segir: ,,Eins og áður sagði erum við 13 og jafnvel fleiri sem ætlum að setjast á skólabekk næsta haust. Gífurlegur skortur er á hjúkrunarfræðingum hér í Eyjum eins og um allt land. Augljóst er að þetta verður mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið. Eins er viðbúið að ef þetta nám gengur vel, þá muni fjarnám aukast í kjölfarið. Má þá segja að kominn sé vísir að háskóla hér í Eyjum.

Í dag standa málin þannig að fólksfækkun er í Eyjum sem skýrist að hluta til af því að ungt fólk fer í nám, t.d. til Reykjavíkur og Akureyrar og oft snýr þetta fólk ekki heim aftur að námi loknu. Háskólanám hér í bænum gæti snúið þessari þróun við vegna þess að þeir sem læra í sinni heimabyggð eru líklegri til að starfa þar.

Það er einlæg ósk okkar að þú skoðir þetta mál og leggir því lið þannig að allt verði tilbúið þegar við hefjum nám næsta haust.``

Undir bréfið rita 13 verðandi hjúkrunarfræðinemar. Því spyr ég hæstv. menntmrh. um leið og ég óska honum velfarnaðar í starfi:

Mun ráðherra beita sér fyrir því að komið verði upp fullnægjandi aðstöðu til fjarnáms í Vestmannaeyjum?