Aðstaða til fjarnáms

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 19:02:31 (6209)

2002-03-13 19:02:31# 127. lþ. 97.14 fundur 516. mál: #A aðstaða til fjarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[19:02]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir hlý orð í minn garð skal ég svara fyrirspurn hennar.

Að undanförnu hafa nokkrir nemendur verið í fjarnámi á háskólastigi í Vestmannaeyjum eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Námið hefur farið fram fyrir milligöngu rannsóknaseturs Háskóla Íslands. Rannsóknasetrið hefur yfir fjarfundabúnaði að ráða en húsnæði til námsins er takmarkað eins og fram hefur komið.

Næsta haust hafa 13 konur í Vestmannaeyjum áhuga á að leggja stund á fjarnám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Húsnæði rannsóknasetursins dugar ekki fyrir þennan fjölda og nú standa yfir viðræður við stjórnendur Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum um að nemendurnir fái þar aðstöðu. Til þess að svo megi verða þarf að festa kaup á fjarfundabúnaði sem staðsettur verði í Framhaldsskólanum. Ráðuneytið mun á næstunni ræða við forsvarsmenn rannsóknasetursins og Framhaldsskólans um hvernig best verði að því staðið að veita þeim sem hyggja á fjarnám á háskólastigi sem besta aðstöðu til námsins.