Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:57:27 (6397)

2002-03-21 13:57:27# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tek til baka hrós mitt um að hv. þm. hafi ekki verið að fjalla um efnisatriði minnisblaðsins því hann vísar til sjónarmiða manna sem hafa rangtúlkað minnisblaðið algjörlega. Mér þykir nú miður að hrós mitt um hv. þm. átti ekki við.

Varðandi þá umræðu sem hér hefur átt sér stað vil ég nefna það sérstaklega, af því menn eru að tala um upplýsingamál, að hér hafa þeir verið að fjalla um þennan dóm og sumir hverjir bersýnilega án þess að hafa lesið dóminn. Hver er þessi mikli sigur sem er að vinnast í þessu máli? Ég er ekki að tala um hv. upphafsmann málsins, suma aðra hins vegar. Hver er þessi mikli sigur sem áunnist hefur? Hæstiréttur segir að ríkisstjórnin hefði orðið að merkja þetta blað fyrir fram, stimpla það sérstaklega fyrir fram. Það er nú allur sigurinn, þ.e. að stimpla málið fyrir fram. Samkvæmt því væntanlega munu menn gæta sín á því að stimpla slík gögn fyrir fram. Þá er strax tekin afstaða til málsins samkvæmt fyrirmælum Hæstaréttar en ekki þegar álitaefni kemur upp hverju sinni um hvort það eigi að afhenda þessi plögg samkvæmt upplýsingalögum sem er miklu heilbrigðara. Hæstiréttur er því að knýja á um að tekið sé spor aftur á bak, því miður, aftur á bak í upplýsingalögum. Það á sem sagt fyrir fram að stimpla svona skjöl sérstaklega áður en þau eru send út. Þetta er því ekki nokkur sigur, því miður, fyrir upplýsingamál í þessum efnum. Ef menn skoða það þá finnur Hæstiréttur það eitt að að plaggið var ekki stimplað sérstaklega sem trúnaðarmál ríkisstjórnarinnar áður en það var sent þessum hópi sem var að vinna að málinu. Ég sé nú ekki mikinn sigur í því.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að ríkisstjórnin hefði breytt lögum eftir úrskurð Samkeppnisstofnunar. Ég kannast ekki við það. Það er best hún komi með það.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði að sjálfskaparvítin væru verst. Þar mælti nú sá sem best mátti vita.