Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:51:07 (6412)

2002-03-21 14:51:07# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sé það sannleikanum samkvæmt að hæstv. ráðherra sé ekki í bænum og ætli ekki að verða viðstödd þessa umræðu þá finnst mér ekki koma annað til greina en að henni verði frestað.

Nú gerist það að sjálfsögðu oft að hæstv. ráðherrar leita til þingmanna, ekki síst þeirra sem næstir eru á dagskrá, og spyrja hvort þeim sé á móti skapi að þeir bregði sér af bæ. Yfirleitt vilja alþingismenn sýna tillitssemi við slíkar aðstæður og það kann að vera uppi á teningnum nú sem oftar.

Hér er hins vegar um miklu stærra mál að tefla. Við erum að fjalla hér um stærstu fjárfestingu Íslandssögunnar. Að sjálfsögðu á sá ráðherra í ríkisstjórninni sem er ábyrgur fyrir málaflokknum að vera viðstaddur þá umræðu. Þannig að ef hæstv. iðnrh. ætlar ekki að vera viðstaddur umræðuna finnst mér ekki annað koma til greina en að henni verði slegið á frest.