Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:52:21 (6413)

2002-03-21 14:52:21# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Já, leiksýningu, herra forseti, kallaði hv. þm. Hjálmar Árnason það að hér eru gerðar athugasemdir við að hæstv. ráðherra sé ekki viðstaddur umræðuna í þessu stóra og mikla máli sem slíkt ofurkapp er lagt á að knýja í gegn. Það kallar hv. þm. Hjálmar Árnason leiksýningu og fer svo með þau fræði að nál. séu á dagskrá.

Ég hélt að það væri stjfrv. sem er á dagskrá og heyrði undir tiltekinn ráðherra en ekki bara nál., svo merkileg sem þau kunna að vera og sérstaklega meiri hlutans, en hin gagnmerka framsöguræða fyrir því snerist eiginlega um allt annað en málið sjálft.

Staðreyndin er að það er skýlaus krafa og rík þinghefð fyrir því að ef óskað er eftir því að ráðherrar viðkomandi málaflokks séu viðstaddir þegar umræður um mál þeirra fara fram þá er orðið við því. Ótal dæmi eru til úr þingsölum um að ráðherrar hafi verið vaktir um miðjar nætur og sóttir heim til sín til að svara hér spurningum og vera viðstaddir umræður. Síðast fyrir nokkrum dögum var gagnrýnt að aðrir ráðherrar en þeir sem fóru með viðkomandi mál væru ekki jafnframt viðstaddir. Þá sagði hæstv. iðnrh. að þar sem hún væri á staðnum væri ástæðulaust að gera kröfur um að aðrir ráðherrar væru það líka. Hæstv. ráðherra lét jafnvel að því liggja að hún hefði bara móðgast ef aðrir ráðherrar væru að vasast í hennar málum. En það hvarflaði ekki að hæstv. iðn.- og viðskrh. að gera athugasemdir við að nærveru hennar væri óskað, enda er það ekki venjan.

Það breytir engu þó að hæstv. ráðherra hafi talað við einn eða tvo þingmenn sem næstir voru á mælendaskrá. Það leysir hæstv. ráðherra ekki undan skyldum sínum. Við höfum öll skyldum að gegna. Þannig er það með okkur alla, þingmenn Norðurl. e., að við ættum að vera annars staðar, þ.e. við opinbera athöfn sem nú fer fram í Háskólanum á Akureyri. Kannski er hæstv. iðn.- og viðskrh. þar. Við hin, sem erum hér viðstödd þessa umræðu, erum að afsala okkur því að geta verið þar.

Ég mótmæli því að hæstv. ráðherra hafi einhver forréttindi af því tagi að hún geti farið í burtu frekar en aðrir þingmenn, sérstaklega þegar hér er á dagskrá mál sem hæstv. ráðherra leggur sjálf ofurkapp á að nái fram að ganga. Það sjá allir að það er algjör lágmarkskrafa að ráðherra greiði a.m.k. fyrir því fyrir sitt leyti með því að vera viðstödd umræðuna.

Ég ítreka óskir mínar, herra forseti, um það að umræðunni verði frestað úr því að ljóst er að ráðherra hefur sjálf valið að fara úr bænum við þessar aðstæður, og hún ekki tekin á dagskrá fyrr en í fyrsta lagi að ráðherrann er mættur og helst ekki yfirleitt.