Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:22:04 (6423)

2002-03-21 16:22:04# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:22]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, sem er talsmaður Samfylkingarinnar í þessu máli, hvort samfylkingarmenn hafi kastað þeim prinsippum sem þeir hafa áður sett fram varðandi vinnu að málum sem þessu. Þá vil ég spyrja hana sérstaklega um stækkun við Kröflu en þar er mat á umhverfisáhrifum eingöngu framkvæmt fyrir 40 megavatta stækkun en hins vegar liggur fyrir að á grunni þessara laga þarf að sækja þangað 100 megavött.

Það liggur líka fyrir varðandi 121 km línu austur frá Kröflu, að mat á umhverfisáhrifum hennar liggur ekki fyrir. Ég minnist þess í umræðum hér hjá hv. þm. Samfylkingarinnar að þeir hafa hingað til lagt mjög sterka áherslu á að umhverfismatsferlið sé búið og afgreitt áður en hægt er að ganga til verka. Þess vegna verð ég eiginlega að lýsa furðu minni á því að Samfylkingin skuli geta afgreitt þetta mál með svo litlum fyrirvörum sem raun ber vitni og skrifað undir það. Ég staldra sérstaklega við þessi tvö mál sem eru gríðarlega stór --- 120 megavatta stöð í Kröflu er ekkert smámál en það er afgreitt í þessu frv. óbeint. Bjarnarflagsstöð er ekkert smámál. Þetta hefur ekki farið í umhverfismat og heldur ekki línan.