Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:03:16 (6437)

2002-03-21 17:03:16# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta sjútvn. um frv. til laga um eldi nytjastofna sjávar.

Markmið frumvarpsins eru í 1. gr. þess sögð vera að stuðla að ábyrgu eldi nytjastofna og tryggja verndun villtra nytjastofna.

Aðaltilgangur frumvarpsins virðist þó vera sá að koma yfirstjórn og eftirliti með þessari starfsemi undir sjávarútvegsráðuneytið.

Að mati minni hlutans mun sú tvískipting eldis sem verður með því að fela sjávarútvegsráðherra yfirstjórn þessara mála og Fiskistofu framkvæmdina óskynsamleg. Hún eykur án vafa kostnað við eftirlitið, t.d. munu sömu fyrirtækin þurfa eftirlit beggja kerfanna séu þau í blandaðri starfsemi. Hún eykur að mati fisksjúkdómanefndar hættu á því að viðbrögð við bráðum sjúkdómum verði ekki nógu markviss og gerir eftirlitið flóknara og þyngra í vöfum.

Landbúnaðarráðuneytið hefur farið með þessi mál og það þarf einungis lítils háttar breytingar á lögunum um lax- og silungsveiði til að það eldi sem um er fjallað í frumvarpinu heyri án alls vafa undir eftirlitskerfi þess.

Það er skoðun minni hlutans að eðlilegt sé að fela einu ráðuneyti yfirstjórn þessara mála og þá landbúnaðarráðuneytinu meðan sú skipting sem nú ríkir í Stjórnarráðinu er í gildi.

Nýting takmarkaðra auðlinda færir þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem forgangs njóta til hennar möguleika umfram aðra, bæði fjárhagslega og efnislega. Stjórnun sem hefur takmarkanir á nýtingu auðlinda í för með sér getur gert nýtingarréttinn mjög verðmætan. Verð veiðiheimilda í viðskiptum milli útgerðarmanna hér á landi er gott dæmi um slíkt. Benda má á að gífurlega hátt verð hefur verið greitt t.d. í Noregi fyrir leyfi til að stunda fiskeldi. Það er þess vegna nauðsynlegt að úthlutun leyfa til að reka slíka starfsemi verði háð almennum skilyrðum þar sem jafnræðis verði gætt, t.d. með útboði ef fleiri en einn sækjast eftir aðstöðunni. Það er óviðunandi að framtíðarnýting sameiginlegra auðlinda skuli afhent án nokkurs endurgjalds en virði leyfanna komi síðan fram við eigendaskipti og fráleitt að málum skuli svo skipað að verslun með leyfin verði sérstakur gróðavegur.

Minni hlutinn telur frumvarpið óþarft, það skapi vandamál en leysi engin og leggur til að frumvarpið verði fellt.

Undir álitið skrifa auk þess sem hér stendur, Svanfríður Jónasdóttir og Guðjón A. Kristjánsson.

Ég vil bæta við fáeinum orðum, hæstv. forseti. Ég tel að ekki sé vansalaust að menn skuli standa frammi fyrir þessari tillögu. Hér hafa stjórnarflokkarnir samið um fyrirkomulag sem nánast öllum sem komu á fund nefndarinnar bar saman um að væri óskynsamlegt. Það er vegna þess að náðst hefur pólitískt samkomulag milli stjórnarflokkanna um að skipta þessum hlutum á milli ráðuneytanna. Nú hefur sjútvrn. ekkert verið með starfsemi af þessu tagi á undanförnum árum, en vegna þess að nú horfa menn til þess að hér verði aukning hvað varðar eldi sjávarfiska, þá þarf sjútvrn. og sjútvrh. greinilega á því að halda að fá þetta til sín og þá er horft fram hjá öllum skynsamlegum rökum. Vitaskuld er það ekki þannig að við höfum þá skoðun að eldi sjávarfiska eigi endilega að vera undir landbrn. en við höfum þá skoðun að það eigi bara eitt ráðuneyti að sjá um þetta. Og á meðan menn hafa ekki gert breytingar á Stjórnarráðinu þannig að eitt ráðuneyti sjái um þetta sem væri þá einhvers konar atvinnuvegaráðuneyti, þá er auðvitað ekki skynsamlegt að taka málin undan landbrn. Satt að segja hafa engin rök komið fram. Þetta er ,,af því bara``-fyrirkomulag og það er af því bara að sjútvrh. er frá Sjálfstfl. en landbrh. frá Framsfl. Ég er nánast viss um að ef bæði þessi ráðuneyti hefðu heyrt undir sama stjórnarflokk, þá hefðu menn ekki lent í þessum ósköpum. Ég held því miður að þetta sé skýringin. En hún er ekki nógu góð.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ömurlegt að við skulum standa í þeim sporum að ætla að fara að setja upp tvöfalt kerfi og málefni Stjórnarráðsins þurfa auðvitað að verða tekin til endurskoðunar. Við stöndum ekki bara frammi fyrir því að þetta frv. sé hér til afgreiðslu þar sem verið er að búa til tvöfalt kerfi til eftirlits með fiskeldi, heldur er líka á ferðinni frv. sem hæstv. umhvrh. hefur flutt um verndun hafs og stranda, sem segir okkur það að allir þessir þrír ráðherrar munu verða á ferðinni í sama firðinum til eftirlits, berandi ábyrgð á sömu svæðunum. Yfirráðasvæði þeirra skarast alls staðar í sama firðinum við landið. Það er ekki bjóðandi upp á þetta fyrirkomulag og mér finnst ríkisstjórnin vera að sýna með því að flytja þessi tvö frv. án þess að taka á skipulagi í Stjórnarráðinu, að þar á bæ sé ekki unnið að neinu viti að þessum málum.

Það kom t.d. fram frá fisksjúkdómanefnd, sem óskaði eftir því að fá að ræða við umhvn. um þetta mál, að einungis væri ástæða til að gera eina litla breytingu á lögunum um lax- og silungsveiði að svo komnu máli og ekkert vandamál skapaðist við það og menn tækju sér þá góðan tíma til að skoða þessi mál, hvernig framtíðarskipanin ætti að vera, í staðinn fyrir að hlaupa til með þeim hætti sem nú er gert.

Síðan vil ég minna á að það var í fyrra sem þetta mál var fyrst lagt fram og þá var því nánast bara sparkað út í horn í sjútvn. vegna þess að stjórnarþingmönnum sem þar sátu leist illa á málið og töldu enga ástæðu til að afgreiða það.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ekki upp á það bjóðandi að ráðherra sjávarútvegsmála sé hér ekki til staðar og reyndar finnst mér að ráðherra landbúnaðarmála ætti að vera hér líka til að ræða málið, vegna þess að það er náttúrlega verið að taka verkefni frá landbrn. núna og hæstv. landbrh. þyrfti að koma hér og svara því hvort hann ráði nú ekki við þetta. (SJS: Það er enginn ráðherra hér.) Það mun rétt vera, hér er enginn ráðherra í salnum. (Gripið fram í.) En, hæstv. forseti, mér finnst að hæstv. sjútvrh. ætti að vera hér og svara fyrir það af hverju hann heldur því til streitu að búa til tvöfalt kerfi hvað þessi mál varðar. Ég fer fram á það og ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé hægt að hafa samband við hæstv. sjútvrh. og fá hann til að koma hingað og ræða þessi mál.

(Forseti (HBl): Það er alveg sjálfsagt að gera það og ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að samband sé haft við hæstv. sjútvrh. Óskar hv. þm. eftir því að halda áfram ræðu sinni eða vill hann gera hlé á ræðu sinni?)

Ég vildi nú helst fá tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðherra dálítið út í þessi mál og ég óska eftir því ...

(Forseti (HBl): Vill hv. þm. gera hlé að ræðu sinni, eða vill hv. þm. halda áfram?)

Já, hæstv. forseti, það vil ég.

(Forseti (HBl): Hv. þm. óskar eftir að gera hlé á ræðu sinni --- en hæstv. sjútvrh. er nú genginn í salinn. )

Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. er mættur í salinn og ég fagna því. Við erum að ræða um frv. um eldi nytjastofna sjávar og við í minni hluta sjútvn., sá sem hér stendur og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og Guðjón A. Kristjánsson, leggjumst gegn frv. Við sjáum ástæðu til þess að hæstv. sjútvrh. geri grein fyrir því hvaða ástæður liggja að baki því að hann vill endilega setja af stað nýtt kerfi til að fylgjast með eldi fiska á Íslandi. Það er kerfi til staðar til að fylgjast með slíku og það er alveg klárt mál að það hefur komið fram, enda kom það mjög skýrt fram í umfjöllun nefndarinnar, að þeir sem hafa fjallað um þessi mál segja að þetta sé hættulegt, það muni valda vandamálum sem annars eru ekki til staðar, að fleiri en einn aðili eigi að fylgjast með þessum málum. Fisksjúkdómanefnd óskaði eftir því að koma á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir því að hún teldi að þessu fylgdu vandamál, ekki væri verið að leysa nein vandamál með því að hafa þetta kerfi tvöfalt. Og ég segi, hæstv. forseti, að mér finnst að hæstv. sjútvrh. þurfi að útskýra það fyrir þinginu hvernig á því standi og til hvers hann sé að koma á þessu tvöfalda kerfi. Það hefur ekki komið fram neinn rökstuðningur fyrir því og þeir sem mættu á fundi nefndarinnar voru sammála um að sú leið sem hér er lögð til væri óskynsamleg.

[17:15]

Svo er annað. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa farið yfir það að eftirlitið er í raun í höndum þriggja ráðuneyta, og ekki bara það heldur geta heimamenn átt að hafa eftirlit. Heilbrigðisfulltrúar á viðkomandi svæðum geta verið fjórða valdið sem hefur eftirlit með fiskeldi þar sem um er að ræða fiskeldi í stöðvum sem eru minni en 200 tonn. Er upp á það bjóðandi að svona fyrirkomulagi eigi að koma á og menn skuli koma með ný frv. um þessi efni án þess að leysa nein vandamál, bæta bara við einu kerfinu enn? Á sama tíma er hæstv. umhvrh. að flytja frv. --- ég minnti á það áðan --- um verndun hafs og stranda þar sem hún verður þriðji ráðherrann sem á að bera ábyrgð á lífríkinu og mengun og öðru slíku sem stafar af þessari starfsemi.

Ég held að stundum hafi verið minni ástæða til að kalla á hæstv. ráðherra til að svara fyrir mál sem hann leggur fram heldur en núna. Í fyrra fór þannig fyrir þessu máli í sjútvn. að þar vildu menn ekki líta við því. Það komst ekki áfram í fyrra vegna þess að menn töldu málið illa unnið og hugsunina á bak við það ekki skynsamlega. Satt að segja finnst mér eins og að meiri hlutinn hafi verið hálfnauðugur dreginn á flot til að samþykkja það að skila þessu af sér. (GHall: Það er rangt.) Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson segir: ,,Það er rangt.`` Ég hlustaði á málflutning þingmanna í hv. nefnd bæði í fyrravetur og í vetur og ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst fullkomlega skorta sannfæringu fyrir því sem þarna var verið að gera þó að niðurstaðan hafi verið sú að skila þessu máli þarna út. Það er mín skoðun. Menn geta svo haft einhverja aðra skoðun á því,

Ég sé ástæðu til að nefna það sem ég hef verið hér að tala um og kalla eftir því að hæstv. ráðherra rökstyðji almennilega hvað sé svo nauðsynlegt við það að búa til nýtt eftirlitsapparat á hans vegum til að fylgjast með einhverjum fiskum sem á að fara að ala núna. Og hvernig stendur á því að hann treystir ekki hæstv. landbrh. fyrir þessu máli? Hvernig stendur á því að á sama tíma og menn kalla á hagræðingu og sparnað í öllum ríkisrekstri skuli hæstv. ráðherra standa fyrir þessu?

Hæstv. forseti. Ég vona sannarlega að hæstv. ráðherra komi í ræðustól og rökstyðji þetta þannig að a.m.k. ég skilji hvers vegna hann leggur í þessa göngu því ekki er hún skynsamleg.