Úthald hafrannsóknaskipa

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:20:49 (6557)

2002-03-25 15:20:49# 127. lþ. 104.1 fundur 428#B úthald hafrannsóknaskipa# (óundirbúin fsp.), GAK
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Mig langar að taka til umræðu hafrannsóknir og úthald hafrannsóknaskipa. Á því þingi sem nú starfar hafa verið fluttar margar tillögur um verkefni sem væri verðugt að takast á við, svo sem tillögur um rannsóknir á miðsjávartegundum, áhrifum veiðarfæra og skoðun hafsbotnsins svo eitthvað sé nefnt.

Við erum nýlega búin að eignast stórt, gott, mikið og vandað rannsóknaskip, dýrt en afkastamikið tæki. Ég vil meina að við nýtum þá fjárfestingu afar illa með svo litlu úthaldi sem fyrirhugað er, 220--240 dögum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann hyggist ekki reyna að beita sér fyrir því að úthald rannsóknaskipanna, sérstaklega Árna Friðrikssonar nýja, verði aukið á þessu ári til margra verðugra verkefna sem vafalaust bíða og hvort hann sjái ekki möguleika til að auka við fé til þess að lengja úthald skipsins og takast á við m.a. rannsóknir á hafsbotninum, kortlagningu hans, rannsóknir á fiskstofnum, t.d. miðsjávartegundunum eða samanburðarrannsóknir á veiðarfærum, svo ekki sé talað um botngerð, setlög og aðrar slíkar rannsóknir sem m.a. gætu nýst við að kanna samsetningu botnsins og jafnvel til að kortleggja setlagagerð í botninum.