Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:51:59 (6569)

2002-03-25 15:51:59# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Því miður hef ég ekki á takteinum hér og nú fullkomið svar við öllum spurningum hv. þm. Ég man að þau sveitarfélög sem ég veit að hafa sótt um frest til menntmrh. eru Reykjavík, Hafnarfjörður og Mosfellsbær. Ég þori ekki að fullyrða hvort Kópavogur hafi gert það --- ég man það ekki. Það veit hv. þm. vafalaust betur en ég.

En þau sveitarfélög sem ekki eru búin með einsetninguna eða þurfa enn að tvísetja hafa væntanlega öll sótt um þessa fyrirgreiðslu. Þar af leiðandi fá þau fyrirgreiðslu úr þessum potti.

Varðandi þau sveitarfélög sem ekki uppfylla eitthvert af þeim fimm skilyrðum sem ég taldi upp í framsögu minni held ég að eingöngu sé um sveitarfélagið Hafnarfjörð að ræða. Það er m.a. verið að veita lagaheimild með þessu frv. til þess að sama geti gilt um Áslandsskóla í Hafnarfirði og aðrar einkaframkvæmdir.