Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:20:48 (6580)

2002-03-25 17:20:48# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:20]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við getum verið sammála um það, hafandi báðir verið sveitarstjórnarmenn við hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, að sjálfstæði sveitarfélaga er mikilvægt. Ég vil virða sjálfstæði sveitarfélaga og ekki grípa fram fyrir hendurnar á réttkjörnum sveitarstjórnarmönnum meðan þeir halda sig innan ramma laganna og gera ekki skyssur sem augljóslega koma til með að skaða sveitarfélagið.

Við höfum eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, við höfum bókhaldsnefnd, þ.e. reikningsskila- og upplýsinganefnd, sem samræmir bókhald sveitarfélaga. Báðar þessar nefndir hafa skoðað málin í Hafnarfirði og talið þá reikningsskilavenju góða sem bókhald Hafnarfjarðar er fært eftir.

Ég held að allir Hafnfirðingar viti að Áslandsskóli er byggður í einkaframkvæmd. Ég skil ekki að nokkur maður í Hafnarfirði gangi að því gruflandi. Og ég held að það viti líka allir að bærinn eignast ekki þessa byggingu þegar leigutímanum lýkur.

Ég lít svo á að Hafnarfjörður fái þessa upphæð útborgaða á fjórum árum. Hún er ekki teygð yfir 20 eða 25 ár.