Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 18:07:29 (6597)

2002-03-25 18:07:29# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir hið góða upphaf ræðu hans.

Hvað varðar gæðastýringuna og það fjármagn er náttúrlega alveg ljóst að gæðastýringin verður til í samninganefndinni. Ég heyrði formann Landssambands sauðfjárbænda lýsa hvernig það varð til á aðalfundi sauðfjárbænda og í raun var þessi aðferð samþykkt þar.

Hitt er alveg ljóst, það þekkir hv. þm. sem góður bissnessmaður, að til þess að fá menn með verður að vera hvati, til að fá menn til þess að virka í þessu, kannski svipað og í því kerfi sem við þekkjum úr sjávarútveginum þar sem fólk vinnur í fiskvinnslustöðinni og er á bónus, þ.e. fær þeim mun betra sem afköstin og vandvirknin er meiri. Þar er auðvitað verið að mismuna fólki.

Mér er alveg ljóst að þessi samningur er réttari hvað fjármagnið varðar til lengdar því árátta fjmrn. er auðvitað að hafa halla í öllum samningum. Þessi samningur er í rauninni ekki með halla. Það er rétt sem hv. þm. spyr um. Að mínu mati náðust meiri peningar inn í þennan samning út á hin góðu áform um gæðastýringuna. Ég hvet bændur til þess að átta sig á því að þetta er einfalt kerfi og menn eru að vinna eftir því um allt land. Þetta er nýtt tækifæri og ég hvet alla bændur til að vera með í þessu skemmtilega verkefni og trúi því að sauðfjárræktin verði öflugri á eftir.