Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 19:06:32 (6614)

2002-03-25 19:06:32# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[19:06]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er laukrétt hjá hæstv. ráðherra að ég hef kallað eftir gæðastýringarkerfi. Ég hafði hins vegar aldrei ímyndað mér að því ætti að troða ofan í kokið á bændastétt landsins án þess að hún væri búin að meðtaka það og væri viljug til að fara eftir því eins og það er lagt upp. Þeir bændur sem hafa samband við okkur segja að þetta hafi ekki verið útskýrt nægilega vel fyrir bændum í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. Ég get ekki annað en hlustað á þetta fólk. Mér finnst það vera skylda mín.

Það er ágætt ef hæstv. ráðherra getur upplýst að 85% hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Ég hafði þá tölu ekki á hreinu. En það vantar a.m.k. mikið á það í dag að sátt sé meðal sauðfjárbænda um þennan samning. Undiraldan er mikil og ég held að hæstv. ráðherra væri nær að snúa sér að því að ræða við bændur í landinu og gera þennan samning þannig úr garði að þeir gætu allir staðið að honum frekar en að standa hér og skattyrðast við mig um innihald samningsins.