Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:40:52 (6640)

2002-03-25 21:40:52# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:40]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það eigi að skoða varðandi ríkisstuðninginn í sauðfjárræktinni, sem er einn mikilvægasti þáttur í byggð og búsetu í landinu, hvort ríkisstuðningur ætti ekki að vera þannig að ákveðinn grunnur hans væri í raun bara búsetutengdur og tengdur viðkomandi búi óháð framleiðslumagni þannig að búsetan væri tryggð og það stuðlaði að því að styrkja búsetuna.

Ég óttast að verði beingreiðslurnar framseljanlegar muni það ekki lengur tengjast byggð eða búsetu heldur muni einstakir aðilar, afurðasölufyrirtæki eins og við höfum upplifað með mjólkurbúin, kaupa þennan rétt upp og eru þar af leiðandi líka að kaupa þennan ríkisstuðning þannig að þarna verði kapphlaup um uppkaup á ríkisstuðningi þar sem hinn einstaki bóndi verður allt í einu orðinn aukaatriði og það hvar hann býr. Ég tek undir með hæstv. landbrh. um að þetta beri skoða mjög rækilega og það á að beita sér gegn því.