Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 23:33:14 (6674)

2002-03-25 23:33:14# 127. lþ. 104.7 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:33]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni sýnist manni að við þetta mál sé þverpólitískur stuðningur. Ég lýsi stuðningi við frv. og þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um það. Ég vil þó segja að ég held að mjög mikilvægt sé að hitaveitur og smávirkjanir eins og kemur þarna fram eigi kost á framlögum sem nemi niðurgreiðsluupphæð til viðkomandi svæða ef farið er inn á þau. Það hvetur til þess að við förum í virkjanir sem eru hagkvæmar á heitum svæðum þannig að það girði ekki fyrir framlagið til þessara aðila.

Ég tek undir með hv. þm. Hjálmari Árnasyni og vildi aðallega koma inn á að ég hlakka til að fara í þetta mál og held að það séu e.t.v. nýir vinklar eins og hann benti á sem við gætum bætt inn í málið í meðförum hv. iðnn. Ég vil koma þar alveg sérstaklega inn á einn þátt. Núna heyrðust gagnrýnisraddir varðandi hin gríðarlegu framlög --- við erum að tala um 852 milljónir --- og það kallar á að við förum á móti í gríðarlega fræðslustarfsemi, sérstaklega á þeim svæðum sem nýta niðurgreiðslurnar þannig að menn séu fyllilega meðvitaðir um að vera ekki að sóa rafmagni eða hita.

Ef ég veit rétt var svona fræðsluátak í gangi hjá Rarik en féll upp fyrir. Það voru einhver framlög hjá Rarik til að fara í fræðslu á þessum sviðum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það í hv. iðnn. að fara í fræðsluátak vegna þess að við munum öll hverju fræðslan skilaði okkur, t.d. í orkukreppunni þar sem mjög myndarlegt átak var gert í því að fræða fólk og stilla svo kynditæki sem víða í landinu voru þá keyrð á olíu. Það voru ótrúlegar tölur sem ég hef ekki á takteinum, virðulegi forseti, sem komu út úr því hreinlega að senda flokka manna í fræðslustarf og í framhaldi af því var gert stillingarátak á kynditækjum landsmanna. Þarna er mögulegt að spara alveg gríðarlega fjármuni vegna þess að þetta gildir líka um þau svæði sem hafa jarðhita í dag. Það segja hitaveitustjórar hjá þeim hitaveitum sem hafa breytt um. Þeir hafa t.d. verið knappir á vatn og breytt um frá hemlum yfir í mæla sem hafa hvatt til þess að fólk hefur sparað orkuna o.s.frv. Enginn er að tala um að menn eigi að sitja í kuldanum en við eigum að stefna að því að hefja fræðsluátak til þess að menn sói ekki. Og ég held að það ætti með einhverjum hætti að koma inn í þessa lagasmíð að öll svona fræðsla verði sjálfvirkur þáttur í þessum geira.

Eins og ég segi hlakka ég til að fara í þetta mál í hv. iðnn. Ég held að e.t.v. væri ástæða til að bæta þarna inn í mörgum atriðum, eins og kom fram hjá formanni iðnn., hv. þm. Hjálmari Árnasyni, sem hvettu menn til að fullnýta orkuna. Okkur skilst að einhver slík tækni sé komin fram sem húseigendur geta þegar nýtt til framkvæmda. Það vill svo til að ég var að gera endurbætur á húshitunarkerfinu mínu norður á Akureyri sem þýða gríðarlegan orkusparnað. Breytingin byggir á tiltölulega einföldum aðgerðum og ekki fjárfrekum. Ég held að þetta sé verkefnið heilt yfir til þess að spara okkur fjárfestingar og nýta auðlindirnar betur vegna þess að eins og við öll vitum er það gulls ígildi fyrir allar hitaveitur að ekki sé dregið niður í borholunum og þær fái að jafna sig.

Þess vegna held ég að fræðsluátak sé gríðarlega stórt atriði og að bestu manna yfirsýn erum við kannski að tala um nokkurra milljóna kr. framlag á ári. Starfsemin þyrfti þá að standa árið um kring og gefa þyrfti fólki víðtækar upplýsingar og ábendingar þannig að vel væri farið með þá fjármuni sem væru settir í þessar niðurgreiðslur og ekki síður að spara fyrir þau orkufyrirtæki sem fyrir eru í landinu.