Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:08:13 (6808)

2002-04-03 14:08:13# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hafði afar sérkennileg ummæli um hvernig málfrelsi væri notað í umræðunni. Hér hefur staðið umræða í samtals um 14 klukkustundir á þremur fundum. Tíu manns hafa talað og sá tími er að meðtöldum andsvörum og 14 manns eru á mælendaskrá. Hér er með öðrum orðum á ferðinni, herra forseti, fullkomlega eðlileg umræða um umdeilt stórmál og ég verð að segja alveg eins og er að mig rekur varla minni til að hafa heyrt þingmann í stjórnarandstöðu, ef stjórnarandstöðu skyldi kalla, hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni í þessu máli, taka svona til orða. Ég ætla rétt að vona að hv. þm. sé ekki að tygja sig í að leggja til að málfrelsi verði tekið af mönnum því að þá er eins og kunnugt er stutt í næsta leik sem er sá að taka af mönnum réttinn til að hafa ólíkar skoðanir. Ég ætla rétt að vona að hv. þm. ræði við flokkssystur sína Jóhönnu Sigurðardóttur sem fyrir ekki mörgum árum flutti hér tíu klukkustunda ræðu um eitt mál áður en hann tekur aftur svona til orða. Ég veit ekki hvar stjórnarandstaða sem grefur svona undan sjálfri sér er á vegi stödd.