Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 18:17:51 (6835)

2002-04-03 18:17:51# 127. lþ. 107.1 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að bráðabirgðaákvæði eins og hv. þm. gat um standist ekki. Ég tel óheimilt að framselja til ríkisstjórnarinnar slíkt vald til að ákveða hvort skatturinn er hærri eða lægri sem nemur þessari 1,55 kr.

Það var þannig hér áður fyrr að bensíngjald var reglulega hækkað með ákvörðun fjmrh. í takt við hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar. Frá þessu hefur verið horfið, ekki síst vegna þess að með stjórnarskrárbreytingum árið 1995 var tekið af skarið með að engan skatt mætti á leggja né af taka nema með ákvörðun Alþingis. Alþingi verður þannig að ákveða sjálft hvort þessi skattur á að koma aftur til framkvæmda 1. júlí þessa árs eða ekki, eða einhvern tímann seinna. Alþingi verður að ákveða það með afgerandi hætti. Þessar dagsetningar eru þær sem gilda. Lækkunin gildir í þrjá mánuði samkvæmt frv. Ég hef engin áform um að falla frá þeirri breytingu. Auðvitað var það mat okkar sem stöndum að þessu frv. hvort þarna ætti að miða við tvo mánuði, þrjá mánuði eða fjóra mánuði. Niðurstaðan varð þrír mánuðir í ljósi þeirrar reynslu sem liggur fyrir um verðþróun á þessum markaði en auðvitað vitum við, eins og ég hef ítrekað sagt, að það er ekkert handfast í þeim efnum á þessum tímapunkti.

Að því er varðar hina spurningu þingmannsins, um þessar aðgerðir almennt í ríkisfjármálum, hef ég það ekki handbært hér hvernig staðan nákvæmlega er í þeim málum. Eins og þingmaðurinn nefndi voru ýmsar hækkanir sem ákveðnar voru í frv. fyrir jólin dregnar til baka en hækkun áfengisgjalds, sem ráðgerð var í fjárlögum, hefur ekki komið til framkvæmda. Það þarf lagabreytingu til að hún geti orðið að veruleika en engin ákvörðun liggur fyrir um hvenær slíkt frv. verði flutt.