2002-04-04 00:10:42# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[24:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki með neinar játningar né er ég að viðurkenna eitt eða neitt hér. Ég staðhæfi og ítreka þá afstöðu sem margoft hefur komið fram af minni hálfu og annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að við teljum þetta ekki réttlætanlegar framkvæmdir á umhverfisforsendum, náttúruspjöllin eru slík.

Ég staðhæfi einnig og hef fært fyrir því rök að það eru yfirgnæfandi líkur á, yrði ráðist í þessar framkvæmdir, að þær mundu ekki verða til að treysta lífskjör í landinu, þvert á móti mundu þær grafa undan lífskjörum í landinu.

Við höfum gert þetta áður, segir hv. þm. Það er alveg rétt. Við höfum áður virkjað og áður staðið fyrir stóriðjuverum á Íslandi. Reynslan er engan veginn einhlít í þeim efnum. Ég vísaði t.d. í máli mínu í járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði og þá reynslu sem Íslendingar hafa haft af henni. Þegar staðhæft er að við höfum gert þetta allt áður er það ekki alveg rétt. Þetta er í fyrsta skipti sem reist yrði virkjun, ef af þessu yrði, fyrir einn orkukaupanda. Það er m.a. í því sem hin mikla áhætta felst. Í öðrum tilvikum hefur verið virkjað í þágu stóriðju en einnig til almennra orkukaupenda í landinu. Á þessu er mikill munur.

En ég vonast til að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson verði hér við umræðuna þegar ég flyt seinni ræðu mína. Þá mun ég svara honum ítarlega spurningum hans varðandi íslenska fjárfesta sérstaklega og þá áhættu sem þeir mundu taka í þessu efni.