Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:17:13 (6950)

2002-04-04 15:17:13# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekki athugasemdir við þau viðhorf sem hv. þm. flytur varðandi greinarmun á því hvort um er að ræða einkafyrirtæki eða opinberar stofnanir. Ég tel að vísu að færa megi sterk rök fyrir því að eitt eigi yfir báða að ganga.

Ég er þeirrar skoðunar að þær hugmyndir sem koma fram í þessum tillögum hjá hv. þingmanni séu mjög jákvæðar. Ég styð hugsunina sem þar er að finna nema eitt atriði. Ég set spurningarmerki við þann hluta þessara tillagna þar sem því er velt upp hvort leiða eigi á stokk aðila sem komi fyrir þingnefndir og kunni að gefa villandi eða rangar upplýsingar og flengja opinberlega með einhverjum hætti. Það er verið að tala um að skoða hvort eigi að refsa slíkum mönnum. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Mér finnst það hættulegt. Ég held að við eigum að setja siðareglur og þar er leiðbeiningin um hvernig eigi með að fara. Skömm þessara manna verður því meiri sem samfélaginu er ljósara að þeir hafi brotið þessar reglur í verulegum mæli. Ég held t.d. að þeir menn sem hafa komið nokkuð til umræðu í tengslum við það hvort rangar upplýsingar hafi verið gefnar iðnn. og efh.- og viðskn., sem ég sit í, í tengslum við það mál sem við erum að ræða hérna fari ekki vel út úr því í augum almennings.

En mig langar að spyrja hv. þm.: Telur hann að háttsemi þeirra manna sem komu fyrir iðnn. og sá háttur sem þeir höfðu á, að gefa eða dylja eftir atvikum upplýsingar, sé þess eðlis að það væri saknæmt samkvæmt þeim reglum sem hann hugsar sér að setja upp?