Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:57:40 (6966)

2002-04-04 15:57:40# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin og öðrum sem hér hafa tekið til máls. Það er ákveðinn samhljómur í málflutningi okkar. En ég set spurningarmerki við sitthvað í orðalagi okkar, og í orðalagi fjölmiðlanna þegar talað er um að setja niður deilur. Það er vísað til stjórnmálaþróunar fyrir botni Miðjarðarhafs.

Við erum að verða vitni að hroðalegum stríðsglæpum sem framdir eru frammi fyrir augum heimsins. Þegar talað er í anda átakafrétta um að fólk falli gleymum við því að það er verið að taka fólk af lífi, varnarlaust fólk, iðulega með bundið fyrir augun. Skriðdrekar eyðileggja heimili fólks. Hjúkrunarfólki er meinað að sinna særðum. Ráðist er að fólki sem leitað hefur skjóls í kirkjum gegn mótmælum presta og hjálparfólks. Ég er ekki að mælast til þess að Ísraelsmenn verði beittir hernaðarofbeldi, síður en svo. Ég vil friðsamlegar aðgerðir. Ég vil að friðargæslulið verði sent á þetta svæði. Síðan verði gripið til þeirra vopna sem við höfum á hendi, hinna diplómatísku vopna.

Mér finnst eðlilegt að við þessar aðstæður verði það alvarlega íhugað að draga úr og slíta jafnvel stjórnmálasambandi við Ísrael dragi þeir ekki þegar í stað herlið sitt frá herteknu svæðunum. Þetta er það tungumál sem þeir skilja. Ég mælist til þess við hæstv. utanrrh. að þegar í stað verði komið á framfæri við Ísraelsstjórn harðorðum mótmælum Íslendinga gegn því ofbeldi sem hún beitir varnarlaust fólk á svæðum Palestínumanna, og samsvarandi mótmælum verði komið á framfæri við verndara þeirra sem sitja á valdastólum í Washington.