Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 11:00:24 (6976)

2002-04-05 11:00:24# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, KPál
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Varðandi frv. sem hér er lagt fram um kosningar til sveitarstjórna, þá vil ég lýsa því yfir að mér finnst ekki hægt að vera með mismunandi reglur um kosningar til sveitarstjórna á Norðurlöndum þar sem Norðurlandaþjóðirnar aðrar en Íslendingar hafa gefið Íslendingum tækifæri til að kjósa hjá sér ef þeir hafa breytt lögheimilinu. Að ekki skuli gilda sama regla á Íslandi gagnvart öðrum Norðurlöndum finnst mér ekki við hæfi.

Ég styð það að Norðurlandabúar fái kosningarrétt hér, enda ekki nein rök fyrir öðru. Ég lagði það reyndar til í nefndinni en var því miður ekki við afgreiðslu málsins frá nefndinni og gat ekki komið sjónarmiðum mínum að við lokaafgreiðslu málsins þannig að það er skýringin á því að ég er ekki á nál. meiri hlutans með fyrirvara, en ég hefði viljað hafa fyrirvara um þetta atriði.

Komið hafa fram ýmis rök fyrir því hvers vegna þetta ætti að verða samræmt en ég hef ekki heyrt nein rök gegn því að þetta verði samræmt og hef heldur ekki heyrt það frá hæstv. félmrh. Ég lít því svo á að ástæðan fyrir því að þetta er ekki þarna inni sé bara lapsus eða þá að þetta hafi ekki verið skoðað nægilega til að menn áttuðu sig á því að þarna hefur orðið eitthvert misræmi sem eðlilegt er að leiðrétta. Ég vil ekki hafa langt mál um þetta. Það er alveg skýrt hvað mér finnst að eigi að gera.

Hvað varðar önnur atriði eins og rafrænar kosningar, þá kom fram í nefndinni að rafrænar kosningar væru ekki mögulegar við núverandi aðstæður. Ekki væri hægt að fara í gegnum lögin á svo skömmum tíma þannig að menn treystu því að þetta yrði ágallalaust. Einnig var ekki heldur ljóst hve mikill kostnaður mundi fylgja þessu. Að því leyti til voru menn ekki tilbúnir til þess að fara út í rafrænar kosningar, ekki einu sinni samhliða öðrum aðferðum við kosningar.

Ég lít svo á að rafrænar kosningar hljóti að vera framtíðin. Fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, sem verða væntanlega eftir fjögur ár, verði búið að undirbúa það þannig að hægt verði að breyta lögunum, fara í gegnum alla lagabálka sem lúta að kosningum, samræma það á milli ráðuneyta, félmrn. og dómsmrn., og þá séu sveitarstjórnir einnig undirbúnar undir það að nýta rafræna kosningu. Það kom eins og flestir vita afskaplega vel út í prófkjörum sem haldin hafa verið, t.d. á Seltjarnarnesi. Þar var viðhöfð rafræn kosning í prófkjöri og samdóma álit manna þar var að það hefði gengið afskaplega vel. Sú reynsla sýnir að menn eiga ekki að óttast að fara út í rafrænar kosningar en í mínum huga er spurningin fyrst og fremst um tímann.

Ýmsir aðrir hafa svo sem lýst því yfir, ekki hér í þingsalnum heldur annars staðar í þjóðfélaginu, að gamli sjarminn við þessa svokölluðu handtalningu mundi hverfa við að tölur mundu birtast nánast um leið og kjörstöðum væri lokað. Út af fyrir sig dytti spennan úr kosningunum við það að bíða ekki heilt kvöld eða fram á morgun eftir því að fá úrslit hér og hvar úr kjördæmum og sveitarstjórnum. Ég lít svo á að þetta séu ekki nein rök sem haldi til lengdar, enda held ég að flestir séu sammála um að rafrænar kosningar yrðu þegar upp er staðið öruggari, nákvæmari og hraðari.