2002-04-05 11:47:56# 127. lþ. 111.4 fundur 705. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (framlenging ábyrgðar) frv. 26/2002, Flm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:47]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 120/2001, um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Þetta er býsna langt nafn á einum lögum. En frv. er hins vegar afar stutt, í tveimur greinum og þar af er ein efnismálsgrein og ein gildistökugrein. Málið snýst um að framlengja heimild sem ríkissjóður hefur haft til að taka á sig þessa ábyrgð frá 10. apríl 2002 til ársloka 2002.

Mál þetta hefur komið hér til umræðu áður, fyrst vegna staðfestingar á bráðabirgðalögum, síðan til framlengingar, og málið er þess vegna þekkt hér í þinginu. Staðan er sú núna að það var ákveðinn tímapunktur, sem var 31. mars. Þá var spurningin um hvort aðildarríki Evrópusambandsins og Bandaríkin mundu fella niður sambærilegar tryggingar eða sambærilega ábyrgð ríkisins vegna þessara mála. Það hefur síðan komið fram að þessi ríki hafa ákveðið að framlengja tryggingarnar um 60 daga. Það þýðir að ef við ætluðum að fylgja aðferðinni sem þar er beitt hefði tímabilið runnið út á þeim tíma sem þingið situr ekki. Þess vegna er nauðsynlegt að veita heimild til að framlengja þessa tryggingu þannig að íslenskir flugrekendur sitji við sama borð og aðrir. Við fylgjum með þessu eftir því fyrirkomulagi sem aðrir eru með.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn. Fyrirhugað er að halda fund í nefndinni nú í hádeginu og hefur orðið samkomulag um það við alla aðila í nefndinni að haldinn verði slíkur fundur, þar sem farið verði yfir málið. Ég vona að þetta mál geti átt greiða leið í gegnum þingið. Það er nauðsynlegt vegna þeirra dagsetninga sem liggja fyrir.