Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 15:41:28 (7024)

2002-04-05 15:41:28# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talaði í ræðu sinni nokkuð um orðstír Íslands og ímynd. Það vill svo vel til að ímynd Íslands er mjög hrein og fögur. Það verðum við mjög mikið vör við í iðnrn. vegna þess að við erum þó nokkuð í samskiptum við erlenda aðila. Það er mikið leitað til okkar vegna þess hvað við nýtum mikið af okkar endurnýjanlegu auðlindum. Orka okkar er sem sagt 70% hrein orka sem við notum á Íslandi.

Svo er það eitt sem hefur bæst við núna á síðustu árum, vetnið, sem hefur vakið gríðarlega athygli víða um heim. Til okkar koma stöðugt fyrirspurnir varðandi það.

Hv. þm. nefndi hér tvo þekkta Íslendinga, Lilju Pálmadóttur og Ólaf Jóhann Ólafsson. Viðtöl við þessa einstaklinga hafa vakið athygli. Mér fannst að viðtalið við Ólaf Jóhann væri meira vangaveltur. Hann vildi ekki taka af skarið en hann var vissulega dálítið ,,svag`` fyrir því að við ættum ekki að standa í stórframkvæmdum í óbyggðum vegna náttúrufegurðar og annars slíks.

Hins vegar vil ég geta þess í sambandi við Lilju Pálmadóttur og viðtalið við hana að það kom svo við mig að ég sá ástæðu til að svara henni með opnu bréfi sem birtist á heimasíðu minni sem hefur verið til umfjöllunar. Ég hugsaði með mér að þetta væri sett fram af einlægni, og það var full ástæða til að svara því. Ég vandaði mig þó nokkuð mikið við það.

Það er ekki annaðhvort eða. Við eigum bæði að nýta orkuna og njóta landsins.