Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:50:27 (7098)

2002-04-08 12:50:27# 127. lþ. 114.25 fundur 651. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:50]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna að hér skuli komið fram heildstætt frv. til laga um meðhöndlun úrgangs. Ég tel það löngu tímabært.

Það sem ég hegg hér fyrst eftir, herra forseti, og vildi spyrja hæstv. ráðherra út í, eru ýmsar skilgreiningar. Hún slær mig óneitanlega fyrsta skilgreiningin um afskekkta byggð. Skilgreiningin er þessi, með leyfi forseta:

,,Afskekkt byggð: landsvæði þar sem íbúar í hverju sveitarfélagi eða byggð eru ekki fleiri en 500 og íbúar á ferkílómetra ekki fleiri en fimm og fjarlægð til næsta þéttbýlisstaðar, þar sem íbúar eru minnst 250 á ferkílómetra, ...``

Mér finnst að varlega eigi að fara í að ræða hvað sé afskekkt byggð. Ég veit að við Norðlendingar segjum að vandamálið við Reykjavík sé hvað hún er afskekkt, hvað hún stendur afskekkt og er mikið úr leið. Ég óska eftir því að nefndin skoði það að nota önnur orð þegar hún er að flokka land huglægt í þjónustusvæði eða eitthvað annað. Ég tel að þetta sé kannski gert meira af kæruleysi eða óaðgætni.

Síðan vildi ég líka spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki komi til greina að fært sé saman og landið hreinlega skipulagt formlega í sorpurðunarstaði. Eins og hæstv. ráðherra var hér að gera grein fyrir þá eru býsna harðar og ákveðnar reglur um staðinn, um vöktun, um tryggingar og meira að segja áratugum eftir að urðun er hætt. Kæmi ekki til greina að gera eitthvert formlegt skipulag fyrir allt landið?