Frumvarp um Þjóðhagsstofnun

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:11:01 (7110)

2002-04-08 15:11:01# 127. lþ. 114.1 fundur 481#B Frumvarp um Þjóðhagsstofnun# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er samkomulag milli stjórnarflokkanna um að leggja fram frv. um að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður. Frv. verður dreift hér síðar í dag. Verkefnum Þjóðhagsstofnunar verður komið fyrir hjá öðrum stofnunum að því er varðar ráðgjöf t.d. hjá Alþingi, við stjórnmálaflokka, ráðgjöf við aðila vinnumarkaðarins. Þessir þættir verða í höndum Seðlabankans eins og nánar er gert ráð fyrir í frv.

Einnig hefur tekist mjög gott samstarf með Alþýðusambandi Íslands út af þessu máli þannig að Alþýðusamband Íslands getur tekið að sér aukið hlutverk á sviði efnahagsmála. Aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. samtök atvinnurekenda og samtök launafólks innan vébanda Alþýðusambands Íslands, styðja þessa breytingu og telja hana mikilvæga. En hv. þingmenn geta farið betur yfir það og gert sér grein fyrir því þegar frv. verður dreift á borð þeirra á eftir.