Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:00:28 (7177)

2002-04-08 18:00:28# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:00]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég blandaði mér í umræðuna vegna þess að í athugasemdum við lagafrv., þar sem verið er að fjalla um sameiningu þessara tveggja stofnana í Umferðarstofnun, er víða getið um umferðaröryggi. Ég fór í gegnum það. Hv. þm. spyr mig út í 1. gr. og ég skal koma að henni á eftir, kannski bara í seinni ræðu.

Hv. þm. ræðir líka um umferðaröryggismál í Reykjavík. Ég ætla bara að segja það, og það kemur kannski betur í ljós á eftir ef hv. þm. verður þá viðstödd umræðuna, að umferðaröryggisáætlun sem var í gildi til ársins 2000 í Reykjavík er fyrirmyndarplagg. Þar er tekið á mjög mörgum málum eins og ég hef áður greint frá og stórkostleg framkvæmdaáætlun sett upp, tölusett, sagt hvað á að gera og annað slíkt. Þetta er áætlun að mínu skapi vegna þess að þá verður ekki farið fram hjá því að standa við það sem þar er boðað, og það hefur verið gert.

Það er dálítið annað hér. Það kemur fram og hefur komið fram að menn vilja sjá meiri fjármuni renna til umferðaröryggismála á Íslandi. Umferðarþing ályktaði sérstaklega um, eins og ég mun koma betur að á eftir, að ekkert gagn væri að góðri umferðaröryggisáætlun ef ekki fylgdu fjármunir með.

Gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, sem er alveg hárrétt að eru stórhættuleg og aldrei hægt að fara fram hjá, eru atriði sem við munum ræða, kannski í dag, undir liðnum Vegáætlun og hvernig staðið hefur verið að þeim málum. Ég ætla ekki að fara mikið út í það hér enda gefst ekki tími til þess í stuttu andsvari. Hitt er ljóst og það hefur komið fram að menn telja að í Reykjavík sé ekki unnið eins mikið í vegamálum og gert hefur verið, og e.t.v. er það vegna þess að hér eru ekki sömu aðilar í landstjórn og í stjórn borgarinnar.