Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 20:14:41 (7197)

2002-04-08 20:14:41# 127. lþ. 114.30 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[20:14]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Nokkuð langt er um liðið síðan ég mælti fyrir þessari tillögu. Hv. þm. nefndi m.a. að það væri vandi að setja sér markmið eins og um 40% fækkun slysa til næstu tólf ára, eins og kemur fram í þessari tillögu. Vissulega er rétt að það er nokkuð vandasamt en það er hins vegar alveg nauðsynlegt. Það er ekki hægt að setja fram svona áætlun án þess að í henni séu skýr markmið. Þetta gerist alls staðar í nágrannalöndum okkar. Ég veit að þetta er metnaðarfullt markmið en ég vona svo sannarlega að við náum árangri. Við höfum nokkuð langan tíma til stefnu. Ég vil líka fá að rifja upp að í síðustu umferðaröryggisáætlun náðust þau markmið sem þar voru sett, 20% fækkun slysa minnir mig. Það var mjög ánægjulegt og það gerðist þrátt fyrir að bílaeign hefði aukist alveg gríðarlega og umferð á vegum þar með.

Ég veit ekki betur en að Vegagerðin sé með umferðaröryggisáætlun og það er afskaplega gott samstarf milli dómsmrn. og samgrn. í þessum efnum. Við vinnum mjög náið með Vegagerðinni. Lögreglan gerir það mjög víða. Það eru alls kyns samningar og samstarfsverkefni í gangi þar þannig að umferðareftirlit hefur aukist alveg gríðarlega. Það sést best á þeim tölum sem lögreglan hefur þar sem menn hafa verið teknir fyrir umferðarlagabrot.

Það er svo margt sem kemur inn í umferðaröryggismál. Það eru ekki eingöngu vegirnir. Það er löggæsla, spurning um sektir, ölvunarakstur og bílbelti. Ótal marga hluti má nefna. Það þarf líka að huga að ökukennslu og mörgum þeim atriðum sem við vorum einmitt að ræða í frv. fyrr á dagskránni, um breyting á umferðarlögunum, bæði um hlutverk Skráningarstofu og Umferðarráðs. Ég bið hv. þingmann að hafa það í huga.