Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 20:34:18 (7204)

2002-04-08 20:34:18# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[20:34]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Tækniháskóla Íslands.

Með lagafrv. þessu er verið að samræma lög um Tækniskóla Íslands lögum um háskóla, nr. 136/1997, en þau lög kveða á um að sérlög um einstakar háskólastofnanir verði endurskoðuð og efni þeirra aðlagað þeim lögum. Stærsti hluti þess náms sem veitt hefur verið á vegum Tækniskóla Íslands hefur verið á háskólastigi og hefur skólinn útskrifað nemendur með viðurkenndar háskólagráður. Jafnframt hefur skólinn átt aðild að samstarfsnefnd háskólastigsins ásamt öðrum háskólum. Með frv. er því verið að staðfesta stöðu skólans sem háskóla í skólakerfinu jafnframt því sem skipulag skólans er aðlagað háskólalögum.

Núverandi starfsemi skólans byggir á lögum nr. 66/1972, með síðari breytingum, en þau lög hafa um alllangt skeið verið í endurskoðun. Á undanförnum tveimur árum hefur menntmrn. leitað til aðila vinnumarkaðarins um að þeir kæmu að eða yfirtækju rekstur skólans en viðræður þar að lútandi skiluðu ekki árangri. Niðurstaðan er því sú að leggja þetta frv. fram þar sem lög um háskóla frá 1997 gera ráð fyrir því að endurskoða skuli lög um háskólastofnanir sem undir lögin heyra. Sú endurskoðun hefur farið fram síðustu árin hjá öðrum ríkisháskólum og er Tækniskólinn sá síðasti í þeirri röð.

Frv. hefur verið unnið í menntmrn. en upphafleg frumvarpsdrög voru send Tækniskóla Íslands til umsagnar. Sérstakur stýrihópur á vegum Tækniskólans skilaði ráðuneytinu umsögn sem tekið var mið af við gerð frv. Þá hefur fulltrúi Tækniskólans unnið með starfsmönnum ráðuneytisins að frágangi frv. á síðustu stigum þess.

Ákvæði frv. um stjórnsýslu Tækniháskóla Íslands eru í samræmi við lög um háskóla og hafa verið aðlöguð að þeim auknu völdum og þeirri auknu ábyrgð sem fylgir í kjölfar aukins sjálfstæðis skólans. Auk þess eru ýmis ákvæði frv. sambærileg ákvæðum laga um Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þannig er stuðlað að samræmi á milli þessara háskóla og jafnframt lagður traustari grunnur að auknu samstarfi Tækniháskólans við aðra skóla á háskólastigi. Meginmarkmið frv. er því að koma á innri skipulagsbreytingu í skólanum en í því felst m.a. að skólastjórnendum er falin aukin ábyrgð og vald. Verði frv. að lögum munu skólastjórnendur, háskólaráð og rektor, hafa tækifæri til að aðlaga skólann að breyttum aðstæðum og hrinda í framkvæmd hugmyndum sem fram hafa komið í aðdraganda frv.

Við Tækniskóla Íslands hefur verið rekin frumgreinadeild sem veitir sérhæfðan undirbúning fyrir nám í tæknigreinum og fleiri greinum á háskólastigi. Námið telst vera á framhaldsskólastigi. Samningur menntmrn. og Tækniskóla Íslands, sem undirritaður var í ágúst 2001, fjallar m.a. um áframhaldandi rekstur frumgreinadeildar. Ekki er fjallað sérstaklega um frumgreinadeildina í frv. þessu enda er þar ekki um að ræða nám á háskólastigi. Hins vegar er gert ráð fyrir áframhaldandi rekstri frumgreinadeildar við Tækniháskóla Íslands sem verður byggður á samningi milli háskólans og menntmrn.

Við frumvarpsgerð þessa hefur nokkuð verið fjallað um nafn skólans. Í frv. er lagt til að skólinn heiti Tækniháskóli Íslands. Tækniháskóli Íslands á að vera fagskóli á sviði tækni og rekstrar sem miðlar sérhæfðri þekkingu á háskólastigi. Markmið hans er að búa nemendur undir að takast á við síbreytileg viðfangsefni og krefjandi störf í atvinnulífinu. Nám í Tækniháskóla Íslands á að opna nemendum sínum leið til viðbótarmenntunar í öðrum háskólum.

Herra forseti. Með þessu frv. fylgir allítarleg greinargerð og mun ég því ekki fjölyrða um það að sinni. Ég legg hins vegar áherslu á að þessi skóli er metnaðarfullur og það er mikils virði fyrir hann að hann hljóti verðugan sess innan háskólakerfisns. Það er mjög brýnt að ganga frá málefnum skólans þannig að hann geti tekist á við þetta nýja hlutverk sitt. Hann hefur gegnt mikilvægu starfi í menntakerfinu, það er verið að tryggja stöðu hans sem háskóla og ég legg því mikla áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga.