Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 22:11:55 (7225)

2002-04-08 22:11:55# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[22:11]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það hver ber fjárhagslega ábyrgð á skólanum þá tel ég að það hefði átt að standa alveg skýrt og skorinort að þetta væri ríkisháskóli vegna þess að allir háskólar, hvort sem þeir eru ríkisháskólar eða einkaháskólar, eiga að falla að háskólalögum. Sú tilvitnun ein og sér dugar ekki til þess að tryggja stöðu háskólans hvað fjárhagslega ábyrgð varðar. Allir háskólar eiga að falla undir hin almennu háskólalög til þess að fá heitið háskólar.

Herra forseti. Ég ítreka að það er ljóst og viðurkennt að það reiknilíkan sem hefur verið beitt sérstaklega á tækninám og starfsnám hefur verið rangt og gefið rangar niðurstöður, rangar vísbendingar um kostnað, og tækninám og starfsnám hefur goldið þess. Ég óttast um framtíð þessa skóla ef ekki verður tekið á þessu af meiri krafti en ýjað er að hér í umsögn fjmrn. þar sem er sagt: Þið verðið bara að sækja fjármagnið til ykkar sjálfra.