Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 10:39:08 (7240)

2002-04-09 10:39:08# 127. lþ. 115.91 fundur 488#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[10:39]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að mjög eðlilega sé staðið að þessum málum. Þetta mál hefur lengi verið í undirbúningi. Það kemur fram núna og mjög vandað til þess í alla staði. Oft hefur það verið þannig þegar mál hafa komið fyrir þingið án þess að vera lengi í undirbúin að hv. þingmenn Vinstri grænna hafa kvartað undan því að það væri ákveðin fljótaskrift á frv. Þeir hafa kvartað undan því að þau væru illa undirbúin. En nú þegar búið er að taka tíma í að sjá fyrir öllum lausum endum er kvartað undan því að málið komi of seint fram. Ég held að það sé tvímælalaust nauðsynlegt að fara í þetta mál og afgreiða það. Ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu að hv. þm. Vinstri grænna viðri sínar hugmyndir um hvernig þeir vilja koma þessum málum fyrir í þeirri umræðu sem á eftir að fara fram og því starfi sem á eftir að fara fram í þingnefndinni.

Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að niðurstaða fáist í þessu máli sem allra fyrst. Starfsfólk Þjóðhagsstofnunar bíður eftir því að það komi niðurstaða í þetta mál, hvernig það eigi að fara. Ég held að það sé þess vegna um að gera að ganga í að klára málið. Ég tel líka nauðsynlegt, vegna undirbúnings fjárlaga fyrir næsta ár og undirbúnings þjóðhagsspár fyrir næsta ár, að allir viti hvernig eigi að standa að þessum málum og ekki þurfi að fara með það mál í gegnum þingið á sama tíma og fjárlög eru undirbúin á haustmánuðum.

Öll rök mæla með því að farið verði í þetta mál núna og það klárað. Ég veit að hv. þm. Vinstri grænna og hv. þm. Össur Skarphéðinsson mun vanda sig mjög í þeirri vinnu sem fram undan er í þinginu við að klára þetta mál með sóma.