Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:38:00 (7300)

2002-04-09 15:38:00# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:38]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Ég get verið sammála hv. þm. um eitt atriði, þ.e. að leiga hér á höfuðborgarsvæðinu er of há hjá einkaaðilum. Það er vandamál og ég viðurkenni það. Hitt er annað mál að það er líka vandamál fyrir fólk að standa undir lánum hjá Íbúðalánasjóði, þó ódýr séu. Vaxtastigið í landinu er nefnilega of hátt. Lífeyrissjóðirnir eru ekki barnanna bestir. Þeir ávaxta fé sitt ekkert síður en aðrir. Þeir halda uppi hárri ávöxtunarkröfu og vilja frá rentu af sínu fé.

Ég geri ráð fyrir því að ráðgjafarnefnd varasjóðs húsnæðismála forgangsraði hvernig unnið verði úr þessu. Ég lít svo á að það verði hennar hlutverk. Það er álit nefndarinnar að þetta dugi. Það er engin uppfinning frá mér að þessir peningar dugi til að leysa þennan vanda á landsvísu. Það hafa verið búin til mörg módel og það sem þeir birta með sinni skýrslu á að þeirra áliti að duga.

Varðandi kostnað vegna þessarar stjórnarnefndar þá ég ekki von á því að hann verði mjög hár. Ég ímynda mér, ef ég slæ því fram í fljótu bragði, að hann geti verið um helmingur af launum stjórnar Íbúðalánasjóðs eða eitthvað svoleiðis. Mér fyndist það ekkert fráleitt. Stjórn Íbúðalánasjóðs er lakar launuð en bankaráðin.

Innlausnaríbúðir sem hafa verið gerðar að leiguíbúðum held ég að séu 1.060.