Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:47:07 (7332)

2002-04-09 17:47:07# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um flugmálaáætlun 2002.

Samkvæmt lögum um flugmálaáætlun ber að endurskoða hana á tveggja ára fresti. Sé tekið mið af því á að endurskoða þessa áætlun nú á þessu þingi. Þetta þýðir að óbreyttum lögum að samþykkja þarf nýja flugmálaáætlun áranna 2002--2005.

Fyrir Alþingi liggur nú frv. til laga um samgönguáætlun og frv. um ýmis lagaákvæði er varða samgönguáætlun. Samkvæmt þessum frv. er gert ráð fyrir að næsta haust verði lögð fyrir Alþingi till. til þál. um samgönguáætlun og jafnframt um fjögurra ára áætlun. Hin nýja samgönguáætlun mun taka til áranna 2003--2014 og fjögurra ára áætlunin, sem í raun tekur við hlutverki hafnaáætlunar, sjóvarnaáætlunar, vegáætlunar og flugmálaáætlunar, mun ná til áranna 2003--2006.

Samgönguáætlun mun verða miklu víðfeðmari en fyrri áætlanir, þ.e. ætlunin er að í henni komi fram, auk fjárfestingaráætlana, yfirgripsmikil markmiðssetning um flesta þætti samgangna og horft verður mun lengra fram á veginn en áður, en þó með hliðsjón af ómetanlegri reynslu sem fengist hefur með langtímaáætlun í vegagerð. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður hvorki talið hyggilegt né hagkvæmt að leggja fram flugmálaáætlun til fjögurra ára nú þegar hún einungis getur gilt til ársins 2002 þar sem samgöngunáætlun tekur yfir 1. jan. 2003. Með öllu verður því að teljast óþarft að ríkisstjórn og Alþingi fjalli um öll fjögur árin þar sem þrjú þeirra verða hvort sem er tekin fyrir á nýjan leik næsta haust eins og margsinnis hefur komið fram í umræðum um vegáætlun.

Hér er því lögð til þáltill. um flugmálaáætlun til eins árs, þ.e. 2002. Við það næst eðlilegt framhald vinnunnar að teknu tilliti til þess að framangreint lagafrv. verði samþykkt, sem ég geri ráð fyrir að gerist á næstu sólarhringum. Nái þetta fram að ganga skapast eitt vandamál sem þó er eingöngu formlegs eðlis. Undirbúningur framkvæmda tekur mun lengri tíma en áður og jafnframt gildir um stærri framkvæmdir að þær ná margar yfir meira en eitt ár. Því skapast óvissa um heimildir stofnana til þess að bjóða út framkvæmdir nú á þessu ári sem ná yfir næsta ár eða fleiri ár. Jafnframt skapast óvissa um sams konar framkvæmdir sem þegar hafa verið boðnar út á þessu ári en eru til lengri tíma.

Því er lagt til að með nál. samgn. um framangreindar áætlanir fyrir árið 2002 fylgi listi um slíkar framkvæmdir sem staðfesti þær heimildir sem um er að ræða. Drög að listum þessum verða send nefndinni sérstaklega. Enn og aftur skal tekið fram að hér er um formsatriði að ræða þar sem vænta má tillögu um samgönguáætlun og fjögurra ára áætlun hennar strax á upphafsdögum Alþingis næsta haust, þ.e. að samþykkt verði að festa þær heimildir sem þarf.

Samgn. hefur lagt fram frhnál. fyrir 3. umr. þar sem lagt er til nýtt bráðabirgðaákvæði er heimilar framangreint í frv. til laga um ýmis lagaákvæði er varða samgönguáætlun. Sú tillaga að flugmálaáætlun sem hér er lögð fram tekur mið af því að eingöngu er um eitt ár að ræða. Í henni er sett fram skilgreind áætlun um allar framkvæmdir á þessu sviði. Ég tel rétt að fara hér yfir þær helstu breytingar sem um er að ræða.

Áður en það er gert er rétt að víkja sérstaklega að einu atriði sem telja verður ógn við fjármögnun flugmálaáætlunar og snýr að þeim efasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur látið í ljós að eigin frumkvæði en ekki er vitað til þess að aðilar úti í þjóðfélaginu hafi kvartað yfir. Eins og þekkt er telur stofnunin núverandi mun á flugvallargjöldum milli brottfara eftir því hvort áfangastaðurinn sé innan lands eða erlendis, ólöglegan. Flugvallargjald innan lands er 165 kr. á farþega en 1.250 kr. í millilandaflugi. Hér skal ekkert fullyrt um réttmæti efasemda ESA. En nái stofnunin þeim markmiðum sínum fram sem hún hefur kynnt er núverandi kerfi fjármögnunar flugmála á Íslandi í uppnámi og innanlandsflugið reyndar einnig hart leikið. Lausn á þeim vanda sem við þetta skapast er vandfundin eins og sakir standa.

Við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2002 var gert ráð fyrir frestun verkefna. Frestun á verkefnum flugmálaáætlunar nemur 68 millj. kr. Það skal tekið skýrt fram að hér er um að ræða frestun en ekki niðurfellingu verkefna enda er um að ræða skýrt afmarkaða tekjustofna sem farþegar greiða. Uppsetning flugmálaáætlunar tekur að hluta mið af væntanlegri samræmdri uppsetningu samgönguáætlunar og er það mitt mat að hin nýja uppsetning sé skýrari og aðgengilegri en áður.

Tekjuhlið flugmálaáætlunar er hefðbundin og er gert ráð fyrir að tekjur af flugvallargjaldi verði 721 millj. á þessu ári. Það er lítils háttar hækkun frá fyrra ári. Lántaka er hins vegar veruleg eða um 311 millj. kr. En samkomulag er um að viðkomandi lán verði greitt niður af framtíðartekjum flugmálaáætlunar. Hér fyrst og fremst um lántöku vegna framkvæmda á Reykjavíkurflugvelli að ræða.

Í umfjöllun um gjaldahlið flugmálaáætlunar 2002 verður ekki undan því vikist að fjalla um Reykjavíkurflugvöll enda fara 76% af fjármagni hennar til þessarar miklu framkvæmdar sem var orðin löngu tímabær og er í raun ein af forsendum fyrir flugöryggi á Íslandi.

Framkvæmdir við endurbætur Reykjavíkurflugvallar hófust í október 1999, eftir að samkomulag hafði tekist milli samgrh. og borgarstjórans í Reykjavík um tilhögun framkvæmda, og miðað er við að þeim ljúki árið 2003. Framkvæmdir sem boðnar voru út og áætlað var að lyki í júlí 2002 eru endurbætur á flugbrautum, sem er feiknarlega stór framkvæmd, ný akbraut og endurbætur á eldri akbrautum, endurbætur á öryggissvæðum flugbrauta, nýtt afvötnunarkerfi, endurnýjun á öllum flugbrautar- og aðflugshallaljósum ásamt rörakerfi fyrir alla rafstrengi, ný fjarlægðar- og leiðbeiningaskilti við allar brautir, ný málning á öllum brautum. Annað sem verður unnið við er girðing umhverfis völlinn, sjósetningaraðstaða fyrir björgunarbát, lokafrágangur ljósa og skilta ásamt uppsetningu veðurmælibúnaðar við völlinn.

Ég ætla ekki á þessum vettvangi að hefja á nýjan leik umræður um staðsetningu vallarins. Um það hefur þegar verið svo mikið rætt og ritað. Ég bendi á orð forstjóra Flugfélags Íslands á málþingi um samgönguáætlun nú nýverið þar sem fram kom sú skoðun hans að verði af flutningi innanlandsflugsins frá Reykjavíkurflugvelli muni það leggjast af í núverandi mynd með tilheyrandi röskun á búseturskilyrðum víða á landsbyggðinni. Svo mikilvægur er Reykjavíkurflugvöllur í augum forsvarsmanna Flugfélags Íslands.

Eins og áður sagði er meginþungi framkvæmda á þessari flugmálaáætlun á Reykjavíkuflugvelli. Gert er ráð fyrir lántökuheimildum, eins og áður sagði, til fjármögnunar utan flugmálaáætlunar. Lán þessi verða síðan endurgreidd af tekjum flugmálaáætlunar fram undir árið 2009. Því er ekki gert ráð fyrir nema tímabundinni fjármögnun ríkissjóðs til þessa mikla verkefnis. Nánar verður gerð grein fyrir þessari áætlun í till. til þál. um samgönguáætlun 2003--2014, en þá verður í reynd mögulegt að staðfesta slíkar langtímaheimildir í fyrsta skipti.

Þó að meginþungi framkvæmda að þessu sinni sé á Reykjavíkurflugvelli verður að nefna að lögð er til veruleg fjárveiting til Akureyrarflugvallar, um 25,9 millj. kr., og er þar innifalin undirbúningsfjárhæð vegna deiliskipulags og hönnunar vélageymslu sem fyrir löngu er orðin tímabær framkvæmd á Akureyrarflugvelli.

Á Ísafjarðarflugvelli er gert ráð fyrir byggingu nýs flugturns þar sem sá gamli er mjög lélegur og aðstaða ófullnægjandi. Kostnaður vegna þeirrar framkvæmdar er áætlaður 10 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir því að undirbúa lengingu flugbrautarinnar á Þingeyri, en Þingeyrarflugvöllur er afar mikilvægur vegna flugs til Vestfjarða þegar aðstæður leyfa ekki lendingu á Ísafjarðarflugvelli. Er því nauðsynlegt að horfa til uppbyggingar þessara flugvalla, Ísafjarðarflugvallar og Þingeyrarflugvallar, samtímis.

Margt bendir til þess að kostnaður vegna flugverndar eigi eftir að aukast verulega á næstu árum. Innan ESB er verið að semja reglur um þetta efni sem einnig munu gilda innan Evrópska efnahgssvæðisins. Ekki er enn þekkt hversu víðtækar þær verða og til hversu mikils hluta af innanlandsflugi þær muni ná.

Í þessari tillögu að flugmálaáætlun 2002 er gert ráð fyrir að á árinu verði keyptur vopnaleitarbúnaður og aðstaða byggð vegna leitar á farþegum og í handfarangri fyrir 20,2 millj. kr. á áætlunarflugvöllum þaðan sem millilandaflug er stundað. Hvorki er í þessari áætlun gert ráð fyrir fjármagni til kaupa á vopnaleitarbúnaði vegna innanlandsflugs né til leitar í lestarfarangri, en niðurstaða Evrópusambandsins um kröfur til slíks búnaðar mun væntanlega liggja fyrir síðar á þessu ári.

Ef ýtrustu kröfur ná fram að ganga um flugvernd í innanlandsflugi gæti árlegur kostnaður numið 300--400 millj. kr. á ári. Kostnaðurinn sem af þessu hlýst mun væntanlega liggja fyrir síðar á þessu ári. Verði það niðurstaðan þarf að taka sérstaklega upp þá fjármögnunarkosti sem fyrir hendi eru en víst er að það verður erfitt verkefni og þá ekki síst ef innheimta flugvallargjalda verður einnig í uppnámi þar til viðbótar.

Nokkrum verkefnum hefur verið frestað frá gildandi áætlun. Ber þar helst að nefna að endurnýjun aðflugsbúnaðar á flugbraut 13 er frestað og byggingu tækjageymslu á Akureyrarflugvelli er frestað að hluta, en undirbúningur verður hins vegar á áætluninni. Til viðbótar má nefna að komið hefur bakslag í áform um næturaðflug á Ísafirði vegna tæknilegra orsaka. Er það miður því að næturflug á Ísafirði hefði verið afar mikilvægt. En fátt bendir til þess að sá möguleiki verði fyrir hendi.

Vinna samgn. nú fram undan mun m.a. felast í að fara yfir þær tillögur að frestun verkefna sem fyrir liggja á þessu ári, taka afstöðu til þeirra og fjalla um möguleika þess að ljúka framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll á þessu ári. Rétt er hér einnig að minna sérstaklega á framkvæmdir sem geta staðið fram á næsta ár og fjalla þarf um í ljósi þess að verið er að breyta aðeins einu ári eins og fyrr var getið. Í þessu samhengi er vísað til þess sem hér hefur verið sagt á undan.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að þáltill. verði vísað til hv. samgn. og síðari umr.