Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 18:25:03 (7337)

2002-04-09 18:25:03# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[18:25]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir góð orð í minn garð. Við gerum okkur báðir fulla grein fyrir því að um þetta mál eru deildar meiningar. Menn skiptast í tvö horn hvað varðar flugvöllinn en ég hef alltaf varið mikilvægi hans fyrir landsbyggðina. Ég vil brýna menn til þess að huga vel að umhverfismálum. Ég held að það sé aðalmálið, eins og kom nú reyndar fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Raunar þarf þar meira til en girðingar og eiginlega ætti Flugmálastjórn að hafa frumkvæði að samvinnu við Reykjavíkurborg um að taka öll svæðin þar í kring og umhverfi vallarins og gera það myndarlega úr garði. Ég get fyrir mína parta alveg séð það fyrir mér að lenda í hálfgildings náttúruparadís á þessu svæði. En það þarf gríðarlegar framkvæmdir, ekki bara girðingarframkvæmdir, heldur líka jarðvegsframkvæmdir, uppgræðslu og því um líkt. Að þessu þarf að standa af myndarskap og það er liður í því, eins og ég sagði í ræðu minni, að menn geti betur sætt sig við að svona mannvirki sé innan borgarmarkanna.