Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 18:49:14 (7351)

2002-04-09 18:49:14# 127. lþ. 115.14 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[18:49]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.

Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum hófust aftur frá Íslandi árið 1994 eftir 27 ára hlé. Á því ári veiddu Íslendingar 21 þús. lestir af síld. Árið 1995 gerðu Íslendingar og Færeyingar með sér tvíhliða samkomulag um nýtingu síldarinnar eftir árangurslausar viðræður þessara þjóða við Rússa og Norðmenn. Árið 1996 tókust samningar milli Færeyinga, Norðmanna, Rússa og Íslendinga um nýtingu síldarstofnsins og árið 1997 bættist Evrópusambandið í hóp samningsaðila. Hlutur Íslands á ári úr leyfilegum heildarafla hefur síðan 1995 verið á bilinu 132--233 þús. lestir.

Um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum giltu á árunum 1998--2001 sérstök tímabundin lög, nr. 38 11. maí 1998, sem féllu úr gildi í lok síðustu síldarvertíðar.

Í frv. er lagt til að almenn lög um stjórn fiskveiða, þ.e. í þessu tilfelli lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, gildi um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, er fjallað um hvernig standa skuli að úthlutun aflahlutdeildar til einstakra skipa þegar ákvörðun er tekin um að takmarka heildarafla úr stofni sem veiðist bæði innan og utan lögsögu Íslands. Samkvæmt þessari grein skal hlutdeild hvers skips ákveðin á grundvelli veiðireynslu þess miðað við þrjú bestu veiðitímabil þess á undangengnum sex veiðitímabilum.

Í frumvarpi þessu er lagt til að vikið verði frá úthlutunarreglu 2. mgr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands með tvennum hætti. Í fyrsta lagi verði aflareynslan alveg frá upphafi síldveiða á árinu 1994 látin ráða aflahlutdeildinni og í öðru lagi verði kveðið með skýrum hætti á um það að hafi skip komið í stað skips þá flytjist aflareynslan jafnframt á milli skipanna. Ástæða þess að lagt er til að miðað verði við veiðar frá upphafi við úthlutun aflahlutdeildar er sú að hluta tímabilsins hefur stjórn veiðanna verið með þeim hætti að skipum hefur verið úthlutað ákveðnu aflahámarki sem hefur verið framseljanlegt, að minnsta kosti að hluta. Framsal aflaheimilda hefur því haft mikil áhrif á aflareynslu skipanna og þar af leiðandi aflahlutdeild þeirra. Með því að miða við veiðar öll árin í stað þriggja þeirra bestu er í raun komið í veg fyrir að sama skipið geti notið fullrar aflareynslu en hafi jafnframt haft áhrif á aflareynslu annarra skipa með framsali. Að aflareynsla flytjist milli skip er í raun í samræmi við þá framkvæmd er tíðkast hefur við sambærilegar úthlutanir veiðiheimilda en ástæða þykir til að kveða með skýrum hætti á um það hér.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn.