Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 23:18:09 (7402)

2002-04-09 23:18:09# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[23:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það verður að segjast að þetta frv. til laga um sölu Steinullarverksmiðjunnar er ákaflega sérkennilegt mál. Það á sér óvenjulegan aðdraganda og málið er allt mjög sérkennilegt.

Eins og hér hefur komið fram og hv. þm. Jón Bjarnason fór yfir er í fyrsta lagi verið að selja ríkiseign án þess að fyrir því sé lagaheimild. Fyrir því er ekki einu sinni heimildargrein í fjárlögum, hvað þá annað. Heimildar skal sem sagt leitað eftir á og þar á ofan var staðið að sölunni þannig að hlýtur að orka stórkostlega tvímælis. Salan er ekki í samræmi við lög og verklagsreglur um opinberar framkvæmdir, meðferð opinberra fjármuna og annað slíkt. Það liggur alveg fyrir að hér er valin mjög óvenjuleg aðferð, að selja þennan hlut án þess að leita í hann tilboða, án þess að Alþingi hafi áður komið að málinu o.s.frv.

Herra forseti. Það vakti jafnframt mikla undrun mína þegar ég heyrði í fjölmiðlum --- ekki í umræðum um málið á þingi, nei, í fjölmiðlum --- að hæstv. ráðherra reyndi að fegra þennan gjörning með því að helmingi söluandvirðisins ætti að verja til verkefna sem ráðherra sjálfur tilgreindi að væri skynsamlegt að setja þetta í, svo sem vegabóta eða annarra verkefna. (Gripið fram í: Í kosningasjóð.) Þá er nokkuð langt gengið, finnst mér. Það er nokkuð óvenjulegt þegar slíkt er boðað í fjölmiðlum, þegar menn slá þannig um sig í fjölmiðlum að ef menn verði þægir og láti svona gjörning kyrran liggja fái þeir þessa mola af borðunum til verkefna sem venjan er að skipa með opinberri áætlanagerð og ákvörðunum Alþingis. Síðan hvenær var það verkefni iðn.- og viðskrh. að boða mönnum einstakar vegaframkvæmdir úti í kjördæmum landsins? Það er nokkuð langt gengið, verð ég að segja. Til hvers er þá þetta streð hér með vegáætlun, fjárlög, fjárreiðulög, ákveðnar verklagsreglur, áætlanir og lög um skipan opinberra mála, ef málin eru meðhöndluð með þessum hætti, herra forseti?

Ég tel þessi vinnubrögð gersamlega fyrir neðan allar hellur. Almennt talað orka þessa eyrnamerkingar, sem menn eru í æ ríkari mæli farnir út í, mjög tvímælis. Ég vil að farið verði yfir það hér málefnalega hver tengingin er. Hver eru rökin fyrir því að þessir peningar úr ríkissjóði, söluandvirði hlutar ríkisins í Steinullarverksmiðjunni, ef seld verður, renni í ríkissjóð söluandvirðið væntanlega eða á að stofna sérstakan bankareikning á Sauðárkróki og láta þennan hlut ríkisteknanna renna þangað en ekki í ríkissjóð, ekki í kassann? Hvað á þessi eyrnamerking í sjálfu sér að þýða?

Auðvitað kann að vera að efnisleg rök standi til þess að byggðarlagið eða nágrannasvæði eigi skilið einhverja uppbót vegna þess að ríkið hleypur frá fyrirtækinu. Ég spyr þá hæstv. ráðherra að því: Eru það rökin? Eru það vísindin á bak við það að helmingur, ekki 40% eða 60% heldur helmingur skuli renna til framkvæmda á þessu svæði, að atvinnureksturinn verði það mikið óöruggari í byggðarlaginu og sveitarfélögin þurfi umbun fyrir? Hver væru rökin ef ekki þau? Sé út af fyrir sig farið yfir það hefur þetta svæði auðvitað notið góðs af því, í formi þessarar atvinnuuppbyggingar, að ríkið var þátttakandi í þessu og kom starfseminni á sínum tíma af stað. Það hafa hins vegar önnur sveitarfélög ekki gert. Meðan þessi atvinnustarfsemi helst á svæðinu þarf í sjálfu sér ekki, af þeim ástæðum, að bæta þessu svæði eitthvað umfram önnur byggðarlög landsins sem geta átt í atvinnuerfiðleikum með viðbótarfjármuni?

Ég féllst á það á sínum tíma þegar ríkið seldi sinn hlut í kísilverksmiðjunni að vegna sérstakra aðstæðna þar og þeirrar miklu ábyrgðar sem sveitarfélagið bar á þróun atvinnulífs og uppbyggingar á því svæði, vegna þess óöryggis sem þá blasti við um framhaldið, að ekki væri óeðlilegt að veita fjármuni úr ríkissjóði til að treysta stoðir atvinnulífs á því svæði. Þá hlýtur sambærileg röksemdafærsla að liggja hér að baki, eða hvað? Er hæstv. iðnrh. ekki þeirrar skoðunar að rekstur Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki, á Sauðárkróki til framtíðar, hafi óljósari stöðu, sé óöruggari í framtíðinni þegar ríkið hverfur þar frá sem eignaraðili? Ef svo er ekki bið ég um rökin fyrir þessari ráðstöfun fjármuna.

Þar fyrir utan, herra forseti, og ég spyr ég út í það sem ég tel fáheyrt: Hefur verið farið yfir, t.d. af þeim mönnum sem þekkja vel til laga um fjárreiður ríkisins, hlutverk fjárln. og annað slíkt, það að lagatexti af þessu tagi skuli borinn hér á borð? Með leyfi forseta stendur í 2. mgr. 1. gr.:

,,Helmingur söluandvirðisins skal renna til samgöngubóta eða annarra verkefna ...`` --- það er ekki nánar skilgreint. Til samgöngubóta, sem gætu þess vegna verið flugmál eða hafnarframkvæmdir, eða annarra verkefna, sem er nokkuð vítt, kannski einhver önnur verkefni sem ríkinu dytti á í hug að leggja fjármuni í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi steinullarverksmiðjunnar. Í frv. segir:

,,Helmingur söluandvirðisins skal renna til samgöngubóta eða annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi steinullarverksmiðjunnar,`` --- er það sveitarfélagið Skagafjörður? Eru það líka sveitarfélögin handan Skaga? Er það Akrahreppur? Er það Siglufjörður? Hvar liggja mörkin?

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum, herra forseti, sem gerir þennan frumvarpstexta algerlega einstæðan, þ.e. ,,... samkvæmt nánari ákvörðun``. Hvers? Fjárln.? Alþingis? Nei, ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar skal söluandvirðinu varið til einhverra samgöngubóta eða einhverra verkefna í einhverjum sveitarfélögum sem teljast eiga hagsmuna að gæta samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Hér er aldeilis framsal á ferðinni, herra forseti. Vill ekki bara ríkisstjórnin taka þetta að sér almennt? Vegáætlunina eða nýju samgönguáætlunina og almenna ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði. Auðvitað eru þetta ekkert annað en tekjur í ríkissjóð eins og annað söluandvirði eigna ríkisins sem eiga að lúta lögum og leikreglum í því sambandi. Ég fullyrði, herra forseti, að þetta væri algerlega einstæður lagatexti næði hann fram að ganga. (Gripið fram í: Það var eins með Kísiliðjuna, sá samningur.) Já, herra forseti. Það var öðruvísi vaxið mál eins og ég hef farið yfir. Þetta mál ber að með allt öðrum hætti. Ég held að hæstv. ráðherra verði að finna sér haldbetri rök en þau. Hafi svo galopin heimild verið veitt til algerlega óskilyrtra ráðstöfunar fjármuna hefur það verið yfirsjón að samþykkja slíkt sem bindur ekki hendur mínar gagnvart því að gagnrýna þetta. Þetta er ekki það verklag sem menn vildu almennt taka upp hér.

Herra forseti. Svo kemur að því að upphaf þessa máls, eins og hæstv. ráðherra fór hér yfir, er að sveitarfélagið Skagafjörður taldi sig þurfa að losa fjármuni út úr þessu fyrirtæki, ef ég kann söguna rétt. Þá það. Út af fyrir sig er vitað að það sveitarfélag eins og mörg fleiri búa við erfiðan fjárhag. Það er auðvitað dapurlegt til þess að vita að þetta sveitarfélag virðist hafa upplifað sig í þeirri stöðu, verið í þeirri stöðu, að það hafi nauðugt viljugt orðið að fara út í þær ákvarðanir sem örugglega hafa ekki verið sársaukalausar og örugglega ekki óumdeildar, að selja verðmætar eignir sveitarfélagsins til að grynnka á skuldum og ná endum saman í rekstri. Sveitarfélagið snýr sér til meðeigenda sinna og fer fram á viðræður um hvort þeir séu tilbúnir að kaupa hlut sveitarfélagsins, kaupa sveitarfélagið út.

Hvað gerist þá? Ríkið hafnar fyrir sitt leyti kaupum á hlut sveitarfélagsins, í desemberbyrjun eða svo. Ég spyr, herra forseti: Hvenær var sú ákvörðun tekin, af hverjum og hvers vegna? Af hverju hafnaði ríkið fyrir sitt leyti að taka þátt í að kaupa sveitarfélagið út ef það varð að losa um eignarhlut sinn? Af hverju hafnaði ríkið því að koma til móts við sveitarfélagið Skagafjörð með sambærilegum hætti og það keypti eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða skömmu áður? Er það jafnræði í framkvæmd? Hvað lá fyrir um afstöðu annarra hluthafa ef ríkið hefði fyrir sitt leyti a.m.k. verið tilbúið að kaupa hlutfallslega sitt eða jafnvel eitthvað meira þannig að sem minnst röskun yrði á eignarhaldi í fyrirtækinu og ríkið hefði áfram með eignarhaldi sínu að hluta til tryggt stöðugleika og m.a. áhrifavald í fyrirtækinu til að tryggja áframhaldandi rekstur þess á staðnum?

Liggur ekki hundurinn grafinn þar, herra forseti, að það er með ákvörðun ríkisins um að hafna því sem málið fer í allt annan farveg? Eða var það eitthvert sjónarspil? Var það leikflétta að fara fram á þessar viðræður við ríkið? Tók ríkið þátt í einhverri sviðsetningu með því að koma málunum í nýtt samhengi með því að synja um þetta í byrjun sl. desembermánaðar eða hvort það var í nóvember?

[23:30]

Ríkið átti fyrir 30% hlut þannig að ekki geta það talist háskaleg eða óverjandi ríkisumsvif --- er það? --- að ríkið eigi þarna mikinn minni hluta í verksmiðju af þessu tagi, ríkið sem hefur átt og á enn af sögulegum, praktískum og fullgildum ástæðum drjúgan eignarhlut í fjölmörgum mikilvægum atvinnufyrirtækjum og iðnfyrirtækjum sem ekki hefðu komið til sögunnar nema fyrir atbeina ríkisins á sínum tíma. Þá voru menn ekki feimnir við það. Dæmi um það eru Áburðarverksmiðjan og Sementsverksmiðjan og fleiri fyrirtæki mætti nefna. Ef ríkið hefði keypt sinn hlut af eignarhlut bæjarsjóðs Sauðárkróks upp á tæp 24%, þ.e. tæpan þriðjung af þeim hlut, þá væru það væntanlega rúm 7% í eign. Ríkið hefði þá farið upp í rúm 37%. Var það ekki allt í lagi ef aðrir samstarfsaðilar hefðu verið tilbúnir til að auka sinn hlut að sama skapi? Hvers vegna hafnaði ríkið því? Ég hef engin rök eða engin svör heyrt um það mál og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi með þau hér. Það er ekki endilega sjálfgefið að þetta mál sé útkljáð. Samningurinn er að sjálfsögðu með öllum þeim fyrirvörum sem í honum hlutu að verða, þar á meðal og ekki síst með fyrirvara um samþykki Alþingis. Það kemur enginn til með að segja að þetta mál gæti ekki tekið nýja stefnu ef svo bæri undir og vilji væri til þess. Mér er ekki kunnugt um að hinir finnsku samstarfsaðilar sem hafa verið mjög verðmætir samstarfsaðilar í þessu fyrirtæki hafi verið með neinar kröfur um að losna út með sinn hlut nema síður sé. Af hverju ættu þeir svo sem að vera það? Það samstarf hefur verið báðum aðilum hagstætt og aðkoma finnska fyrirtækisins skipti miklu á sínum tíma og gerir enn, m.a. og ekki síst í tengslum við markaðssetningu, tækniþekkingu og fleira.

Herra forseti. Ég spyr aftur: Hvað ræður því að framganga ríkisvaldsins í málefnum af þessu tagi er jafntilviljanakennd og mótsagnakennd og raun ber vitni? Allt í einu þegar það virðist henta ríkisstjórninni af pólitískum ástæðum þá er stokkið til og eignarhlutur sveitarfélaganna á Vestfjörðum keyptur á ríflegu verði. Það var út af fyrir sig vitað. Þau voru að vísu þvinguð til þess að selja þennan hlut sinn til að bjarga sér í sambandi við aðsteðjandi vanda, m.a. og ekki síst vegna félagslega íbúðarhúsnæðisins af því að þar var slíkt endemis sleifarlag á að ekki bólaði á neinum efndum eða neinni þátttöku ríkisins í að leysa þann vanda sem nú að vísu örlar á þó að í litlu sé í frv. sem akkúrat núna er til umfjöllunar á þessum klukkutímum í þinginu.

Herra forseti. Ég bendi á þetta. Það er algerlega mótsagnakennt að í einu tilvikinu sé ríkið tilbúið til að kaupa að fullu, 100%, hlut sveitarfélaga í eignum en í öðru tilviki neitar það, hafnar það fyrir sitt leyti að taka þátt í því ásamt fleirum að leysa út eignarhlut sveitarfélags. Ég sé ekki sanngirnis- eða efnisrökin fyrir því að ganga fram með svona mismunandi hætti.

Herra forseti. Ég fullyrði að þó að vissulega hafi ákveðnir byrjunarerfiðleikar verið í uppbyggingu og rekstri steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki eins og hér hefur komið fram, þá má í það heila tekið segja að þar hafi tekist mjög vel til. Það var góð ákvörðun á sínum tíma að ríkið stuðlaði að því að þetta iðnfyrirtæki --- og ég vek athygli á því, meðalstórt iðnfyrirtæki sem féll vel að stærð og aðstæðum í viðkomandi byggðarlagi --- var reist þar sem það var reist. Það hefur tvímælalaust orðið mikil lyftistöng fyrir þetta byggðarlag og sýnir að fleira getur verið álitlegt í þessum efnum en risafabrikkur erlendra aðila sem eru algerlega ofvaxnar viðkomandi byggðarlögum og eru þannig að við Íslendingar ráðum engan veginn við þær einir og sér. Steinullarverksmiðjan er einmitt mjög gott dæmi um iðnaðarkost af millistærð sem betur væru fleiri og víðar í landinu af sama toga. Menn hefðu mátt leggja meiri orku í að leita að slíkum kostum og stuðla að því með atbeina ríkisins að koma þeim upp heldur en eyða allri þeirri orku til einskis í leitinni að risaverkefnunum sem jafnoft, næstum því að segja, herra forseti, hafa runnið út í sandinn.

Herra forseti. Salan orkar líka tvímælis vegna þess, eins og hér hefur verið bent á, að hinir nýju eigendur sem verða mjög ráðandi og nánast einráðir í þessu fyrirtæki eru tvær stærstu byggingarvöruverslanirnar í landinu. Þykir mönnum ekki nóg um fákeppnina og samþjöppunina sem almennt er að verða á fjölmörgum sviðum viðskipta og verslunar hér? Það er eins og ríkisvaldinu verði ekki flökurt, og ekki einu sinni þeim ráðherra sem fer með samkeppnismál, við að stuðla að því með ráðstöfun á eignarhlut ríkisins að þessi samþjöppun aukist. Bara það eitt að ríkið hefði haldið sinni eign hefði tryggt meira jafnvægi og dreifðari eign í fyrirtækinu. Var sá kostur ekki einu sinni athugaður að ríkið segði við meðeigendurna og þá sveitarfélagið Skagafjörð þess vegna: ,,Gott og vel, ef þið viljið losa eignarhlut ykkar og ef aðrir eru tilbúnir til að kaupa ykkur út þá mega þeir það okkar vegna. En við ætlum að halda okkar hlut af því að við teljum mikilvægt að hann sé til staðar og tryggi kjölfestu og stöðugleika í rekstri fyrirtækisins.``

Það vakna mjög margar áleitnar spurningar um þetta, herra forseti. Af hverju í fyrsta lagi var ríkið ekki tilbúið til þess fyrir sitt leyti að taka þátt í að kaupa sveitarfélagið út? Af hverju var það í öðru lagi og þá til vara ekki einu sinni tilbúið til að halda eignarhlut sínum þó það hefði ekki viljað auka hann? Og hvers vegna í ósköpunum er staðið svona undarlega að þessu að öllu leyti, herra forseti?

Að síðustu, eins og hér kom fram og hv. þm. Jón Bjarnason gerði að umtalsefni, vakna auðvitað umsvifalaust spurningar um það hvort nokkuð sé á því að byggja ef þessar breytingar verða að þetta fyrirtæki hverfi ekki af staðnum eftir fáein ár. Þetta minnir óhuggulega á, og margt bendir í átt til þess, þegar ríkið hefur látið frá sér fyrirtæki sem hafa verið látin borga sig sjálf í framhaldinu meira og minna. Dæmi um það eru SR-mjöl og Áburðarverksmiðjan (Gripið fram í.) sem var keypt á 1.100 millj. en reyndist svo eiga 700 millj. verðmæti í áburðarbirgðum og hefur núna verið seld með hagnaði upp á meira en hálfan milljarð kr. til handa aðila sem hefði ekkert gert annað í raun en að eiga verksmiðjuna í örfá ár. Og það sem meira er, nú blasir það auðvitað við að þessi ákvörðun á sínum tíma jafngilti því að leggja Áburðarverksmiðjuna niður og hætta þessari starfsemi í landinu. Það skyldi nú ekki fara svo að þau örlög gætu átt eftir að bíða Steinullarverksmiðjunnar, að annaðhvort flytjist hún hingað suður eða þá hitt sem jafnvel gæti einnig komið til og orðið enn dapurlegra, þ.e. að menn sjái sér hag í því, að aðilar geti bara einfaldlega fært sig yfir í að flytja varninginn inn og hagnast á því að selja hann, inn í landið gegnum tröllatök sín á byggingarvörumarkaðnum og sjái alveg eins gróða í því að höndla með varninginn í formi innflutnings eins og að endurselja framleiðslu sem verksmiðjan mundi halda áfram að framleiða innan lands ef hún yrði til og hvar sem hún yrði þá staðsett.