Afbrigði

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 11:00:45 (7425)

2002-04-10 11:00:45# 127. lþ. 116.94 fundur 498#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er óskað eftir því að Alþingi veiti afbrigði til að afgreiða með hraði heimild til ríkisstjórnarinnar upp á 20 milljarða kr. ríkisábyrgð fyrir eitt tiltekið fyrirtæki í landinu, deCODE. Þetta vekur ýmsar spurningar, sá hraði sem á að hafa á við þessi vinnubrögð og ég spyr: Þolir þetta mál ekki vandaða umfjöllun í þinginu? Það eru nokkrar vikur síðan forsrh. skýrði frá því í opinberri umræðu hvað stæði til að gera. En það er núna fyrst sem þetta kemur inn á borð þingmanna.

Alþingi á að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar, allra fyrirtækja í landinu og mér finnst það vel koma til greina að veita atvinnufyrirtækjum stuðning, og ekki síður á þessu sviði en öðrum.

Herra forseti. Þegar Alþingi og ríkisstjórn ganga til fundar við fyrirtækin í landinu þá á að hafa jafnræðishugsun uppi, en ég hef tekið eftir því að þegar gengið er til fundar við þetta tiltekna fyrirtæki, deCODE, hefur ríkisstjórnin tamið sér ákveðið göngulag. Hún er alltaf á hnjánum.

(Forseti (HBl): Ég veit ekki hvort mér er óhætt að skjóta því inn í að ef maður er á hnjánum á Skjálfandaflóa, þá er maður á einhverjum fengsælustu bátamiðum sem þar eru.)