Ófrjósemisaðgerðir 1938--1975

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 14:44:09 (7637)

2002-04-17 14:44:09# 127. lþ. 120.1 fundur 388. mál: #A ófrjósemisaðgerðir 1938--1975# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Sú skýrsla sem við ræðum hér í dag er að mörgu leyti afar fróðleg. Hún vekur upp ýmsar spurningar þegar hún er lesin og efni hennar skoðað. Eftir sem áður liggur auðvitað fyrir að hér er partur af okkar fyrri sögu. Lögin eru sett 1938 og eru auðvitað barn síns tíma. Þau viðhorf sem þá voru ríkjandi eru auðvitað ástæða þess að þau voru sett. Samt vekur athygli að í töflu í skýrslunni kemur í ljós að það er ekki fyrr en eftir 1950 sem lögunum er virkilega beitt.

Lögunum er að langmestu beitt gagnvart konum. Eins og ég sagði er það eftir miðja síðustu öld sem lögin fara í fulla virkni ef hægt er að segja sem svo, a.m.k. þegar litið er á þann fjölda aðgerða sem framkvæmdar eru samkvæmt lögunum. Á fyrsta hluta tímabilsins, frá 1940--1950, eru aðgerðirnar tiltölulega fáar en fjölgar svo verulega og komast upp í það að vera á fimm ára tímabili um 200. Eins og ég sagði, og hefur komið fram í máli fyrri ræðumanna, hafa þessar ófrjósemisaðgerðir að langmestu leyti snúið að konum.

Ef til vill hafa þau sjónarmið verið mjög ríkjandi á fyrri hluta síðustu aldar að það væri eðlilegt að takmarka barneignir kvenna sem væru að einhverju leyti, eins og tíminn skilgreindi það, ekki heilbrigðar, þ.e. vangefnar eða ættu við ákveðna fötlun að stríða. Þegar hins vegar leið lengra fram á öldina fór það ekki að þykja sjálfsagt að konur ættu fjölda barna. Ég minnist orða gamallar konu sem hafði eignast sextán börn þegar hún var spurð hvort ekki hefði verið óþarfi að eignast öll þessi börn. Hún sneri sér að viðmælandanum og sagði: Og hvert þeirra skyldi ekki hafa átt að lifa? Ég held nefnilega að það sé afar erfitt fyrir fólk, okkur sem lifum nú á tímum, að dæma það sem hér birtist. Það er hins vegar alveg nauðsynlegt að við þorum að horfast í augu við fortíð okkar og draga af henni lærdóm, velta henni fyrir okkur og spyrja okkur spurninga um það sem þar birtist.

Ég ætla ekki að hafa um þessa skýrslu mörg orð. Mér finnst hún mjög fróðleg. Það er auðvitað eins og ég sagði afar sláandi að aðgerðir samkvæmt þessum lögum skuli fyrst og fremst hafa snúið að konum á þessu 38 ára tímabili sem lögin voru í gildi, og þó einkum á seinni hluta þess tímabils.

Sem betur fer eru ríkjandi viðhorf þess tíma nú verulega á undanhaldi og nánast horfin. Nú er talið eðlilegt að horfa með allt öðrum augum til fólks sem að einhverju leyti býr við fötlun heldur en gert var á þessu tímabili. Því ber auðvitað að fagna en líka því að þessi skýrsla er til. Af henni getum við lært.