2002-04-17 15:24:17# 127. lþ. 121.20 fundur 660. mál: #A öryggisráðstafanir lögreglunnar í tengslum við fund utanríkisráðherra NATO# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin. Ég er svolítið undrandi á því að kostnaðurinn við öryggisgæslu vegna fundarins skuli ekki liggja fyrir. Það er tæpur mánuður til fundarins og ég hefði haldið að áætlanir þar um lægju fyrir. Eins og hæstv. dómsmrh. benti á voru ætlaðar til öryggisgæslunnar 50 millj. kr. á fjárlögum yfirstandandi árs, en ekki er víst það það nægi.

Herra forseti. Ég vildi gjarnan vita hvort við séum að tala um einhverjar milljónir í viðbót eða jafnvel einhverja tugi milljóna í viðbót því auðvitað er hér verið að ráðstafa skattfé borgaranna til þessarar öryggisgæslu.

Ég ætla ekki að gera lítið úr nauðsyn öryggisgæslunnar. Ég leyfði mér hins vegar að benda á hugarfarið sem því fylgir að búast við óeirðum og ef menn, eins og segir í sportinu, búast við hinu versta. Ég hef sjálf orðið vitni að því við friðsamlegar mótmælaaðgerðir erlendis að það var greinilegt að lögreglan átti von á einhverju allt öðru en við sem vorum að mótmæla ætluðum okkur. Þá getur skapast mjög eldfimt ástand og ábyrgð lögreglunnar er vissulega mjög mikil.

Einnig geri ég mér grein fyrir því að auðvitað eru aðstæður aðrar eftir 11. september. En mig langar að inna hæstv. dómsmrh. nánar eftir því hvaða alþjóðlegu reglur hún vísar í sem mæla fyrir um öryggisgæsluna á fundi sem þessum.