Kísilvegur

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:51:41 (7684)

2002-04-17 18:51:41# 127. lþ. 121.10 fundur 591. mál: #A Kísilvegur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:51]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir það svar sem hann veitti við þeirri fyrirspurn sem ég lagði fram um Kísilveg. Það er sannarlega rétt, eins og hér hefur komið fram, að áætlað er að það kosti 300--400 milljónir að klára þann veg.

Nú er það svo, herra forseti, að einmitt á þessum tímapunkti eru þingmannahópar, fulltrúar kjördæmanna, að ræða um endurskoðun á vegáætlun, sem er dálítið sérstök vegna þess að hún er eingöngu gerð fyrir árið 2002, eins og fram hefur komið, vegna þess að við erum að samræma þennan tíma og munum ræða þetta frekar í haust.

Boðað hefur verið að skera þurfi niður fjárframlög til vegamála á þessu ári upp á næstum því 2.000 milljónir og þingmenn hinna einstöku kjördæma eru nú að ræða þessi mál á þessum tímapunkti.

Ég ítreka og vil segja það hér að þessi vegur er ákaflega mikilvægur og ég óttast það að sú krafa gæti komið upp frá erlendum kaupendum á kísilgúr að það efni sem verið er að selja og flytja þarna, verði flutt eftir betri vegi en þarna er, með öðrum orðum, að menn muni ekkert sætta sig við að slíkir flutningar muni eiga sér stað á moldardrulluvegi eins og í raun og veru þarna er, ég tala nú ekki um þegar hann er hvað verstur.

Þess vegna ítreka ég það og segi: Það er ákaflega mikilvægt, eins og náttúrlega með marga aðra vegi, að þarna sé tekið á. En ég vil líka ítreka það sem ég sagði áðan um mikilvægi þessa svæðis sem iðnaðar- og ferðamannasvæðis.

Rétt í lokin, það er náttúrlega ekki hægt að una við það að svo mikilvægur vegur sem miklir flutningar fara um sé eingöngu mokaður fimm daga vikunnar. Og það er ekki eingöngu moksturinn heldur er vetrarviðhald. Við vitum að vetrarviðhald, hálkuvörn og annað hefur verið lítið og þarna hafa orðið slys og ég tala nú ekki um stór og mikil tjón á bílum sem keyrt hafa um þennan veg.