Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 13:30:52 (7773)

2002-04-18 13:30:52# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[13:30]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Ég tek þá upp þráðinn að nýju þar sem ég sleppti honum um eittleytið þegar við gerðum hádegisverðarhlé. Við erum að ræða hér lagafrv. um breytingu á virðisaukaskatti, og frv. gengur í grófum dráttum út á það að breyta virðisaukaskatti á innfluttum bókum til samræmis við þann skatt sem er á innlendum bókum.

Fyrir fáeinum árum var virðisaukaskattur á innlendum bókum lækkaður til að styrkja íslenska bókaútgáfu en á þeim tíma voru uppi háværar kröfur í þjóðfélaginu um þetta efni, auk þess sem mörg íslensk bókaforlög áttu í miklum fjárhagserfiðleikum. Við þessu var orðið.

Síðan var það kært til ESA-dómstólsins, væntanlega af hálfu innflytjenda á bókum, að þarna nytu menn ekki jafnræðis, sami skattur ætti að vera á innlendum bókum og innfluttum. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að þarna ætti sama skattprósentan að gilda, og frv. gengur einmitt út á að jafna þarna á milli, ekki með því að hækka skatta á innlendum bókum heldur með því að lækka skatt á innfluttu bókunum.

Í upphafi þessarar umræðu nefndi ég það sjónarmið að það væri mikilvægt að við hygðum að því hvaða afleiðingar þetta hefði í för með sér fyrir ríkissjóð og vakti athygli á því að þetta mundi að öllum líkindum rýra tekjur hans um 150 millj. kr., og að við yrðum jafnan að hafa í huga hvaða áhrif niðurskurður af þessu tagi gæti haft á öðrum sviðum. Auðvitað kæmi sér vel fyrir fólk að fá lækkun á bókakostnaði, og hefur verið vísað í námsmenn í því sambandi, en á móti væri það bagalegt ef þetta kallaði á hækkanir á þjónustugjöldum eða einhverjum íþyngjandi gjöldum á öðru sviði. Á þessu vildi ég vekja athygli.

Af þessu hafa síðan spunnist miklar umræður um Evrópusambandið og um það hvaða áhrif við getum haft innan þess. Því hefur verið hreyft að þessar reglur væru aðrar ef við værum innan Evrópusambandsins en gerist nú samkvæmt EES-skilmálum. Ég ætla ekki að fella neinn dóm um það, ég hef ekki kynnt mér það rækilega þótt ég hafi talsverðar efasemdir um að þetta sé rétt. Þetta er nokkuð sem þarfnast frekari skoðunar.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, herra forseti, en aðeins að botna það sem ég var byrjaður að ræða í síðari ræðu minni um áhrif sem Íslendingar mundu hafa innan Evrópusambandsins ef þeir sæktu um aðild. Hér hefur hver samfylkingarmaðurinn á fætur öðrum talað einmitt því máli að við gengjum inn í Evrópusambandið til að hafa áhrif. Ég hef fært rök fyrir því að þetta sé mikill misskilningur, við mundum ekki hafa nein teljandi áhrif innan Evrópusambandsins, og vísaði í stofnanaveldið og uppbyggingu þess, hvernig við kæmum til með að hafa innan við 2% þátttakenda í ráðherraráðinu sem er eins konar baknefnd fyrir framkvæmdanefnd Evrópusambandsins sem öllu ræður þar, og að á Evrópuþinginu yrðum við sennilega með um hálft til eitt prósent.

Ég var þar kominn í sögunni að ég var að leggja áherslu á að ákvarðanir innan Evrópusambandsins eru mjög duldar. Sú umræða sem hér fer fram um áhrifaleysi gagnvart Evrópusambandinu á sér stað í öllum Evrópusambandsríkjunum. Þar er víða uppi mikil gagnrýni innan þjóðþinganna í þá veru að Evrópusambandið og miðstýringarvaldið sé að soga til sín sífellt meiri völd. Ég vék einnig að því og vísaði þar í grein sem birtist í breska blaðinu Guardian í gær að fjölþjóðafyrirtæki, fjármagnið, hafa mjög mikil áhrif á alla stefnumótun innan Evrópusambandsins. Í þessari grein í Guardian segir hvernig fjölþjóðafyrirtækin hafa beitt miðstýringarvaldinu í Brussel til að hafa áhrif í þá veru að á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WPO, verði samið um einkavæðingu á stoðþjónustu samfélaganna um heim allan. Evrópusambandið er núna, upplýsir Guardian, að leita leiða gagnvart ríkjum utan Evrópusambandsins til að þrýsta á þau um einkavæðingu. Í þessari blaðagrein er vitnað í Dave Timms frá Þróunarsamvinnuhreyfingunni, hreyfingu sem ber hag þróunarríkja fyrir brjósti, sem segist vera furðu lostinn og gagnrýnir það mjög að Evrópusambandið sé að beita sér í þessa veru í þágu fjölþjóðlegs fjármagns. Síðan er farið um þetta ítarlegum orðum.

En í þessu sambandi langar mig, áður en ég lýk ræðu minni, til að vekja athygli á því að á fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Doha á Arabíuskaganum fyrir fáeinum vikum var tekin um það ákvörðun að hefja umræður um svokallaða GATTS-samninga. Það er framhald á gömlu GATT-samningunum um afnám eða lækkun tolla og skatta. Það er búið að bæta S aftan við sem skírskotar í ,,services``, í þjónustu. Á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var tekin ákvörðun um það á fundinum í Doha að nú yrði farið á fulla ferð í þessum samningum. Innan Evrópusambandsins var tekin um það ákvörðun í framkvæmdanefndinni að Evrópusambandið mundi beita sér í þessa veru. Og í þessari grein í Guardian er einmitt vísað í það starf.

En ég spyr, herra forseti: Hvað er að gerast hér á landi? Eftir því sem ég hef fréttir um ber okkur fyrir júnílok, fremur en júlílok, að hafa komið á framfæri við Alþjóðaviðskiptastofnunina óskum Íslendinga í þessa veru. Ég hef einnig fyrir því fréttir að þegar sé farið að vinna að því í utanrrn. að móta stefnu Íslendinga. En ég spyr, herra forseti: Hvar er umræða um þessi efni hér? Auðvitað á hún heima í sölum Alþingis. Við eigum að ræða það hér hvaða áherslur Íslendingar ætli að hafa í þessu alþjóðasamstarfi. Hvernig viljum við skilgreina þjónustu? Þetta hefur ekki verið rætt og það finnst mér vera gagnrýnivert. Einmitt þessi framgangsmáti er mjög einkennandi fyrir Evrópusambandið. Þar eru ákvarðanir teknar, jafnvel um svona efni, bak við luktar dyr, og þetta eru staðreyndir. Það kostar rannsóknarblaðamenn mikla vinnu að grafast fyrir um það hvað Evrópusambandið er að sýsla í þessum efnum.

Mér finnst að öllu þessu þurfi að halda til haga þegar við erum að ræða um Evrópusambandið og áhrifamátt Íslendinga innan þess sambands ef við gerðumst aðilar að því. Sá áhrifamáttur yrði afskaplega lítill. Við eigum hins vegar að beita okkur á fjölþjóðlegum vettvangi í alþjóðasamfélaginu í kröftugri umræðu um þessi efni. Að sjálfsögðu eigum við að gera það. En við eigum ekki að einangra okkur við það sem gerist innan Evrópusambandsins og það er í því samhengi sem ég hef vísað til evrópsku einangrunarhyggjunnar.

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni ef hann telur að sá sem hér stendur sé talsmaður annars en fjölþjóðahyggju og alþjóðahyggju. Ég hef átt þess kost, m.a. á vettvangi verkalýðshreyfingar, að sækja alþjóðlegar ráðstefnur verkalýðssamtaka heimsins, og mér hefur alltaf fundist koma ferskur blær þegar heimurinn allur sendir fulltrúa sína til leiks, þegar fulltrúar úr öllum heimshornum koma saman til að ráða ráðum sínum, móta stefnu og hafa áhrif á framvinduna. Oftar en ekki finnst mér ég hafa átt samleið með fulltrúum verkalýðshreyfinga utan Evrópu ekkert síður en þeim sem þar eru innan, jafnvel fremur. Ég hef stundum undrast það í heimi sem er að alþjóðavæðast, þar sem fjármagnið spyr ekki um landamæri, hvernig í ósköpunum menn kenna það við alþjóðahyggju að ætla að einangra sig innan múrveggja Brussel sem miðstýrir öllum ákvörðunum um þau efni sem ég hef hér m.a. verið að vekja athygli á. Og það er Evrópusambandið sem öllum öðrum fremur beitir sér nú fyrir því í heiminum að stoð- og almannaþjónusta verði einkavædd, og ekki bara innan þeirra landamæra. Nei, þar á bæ horfa menn til heimsins alls í þessu efni vegna þess að verið er að greiða götu fjölþjóðlegra fyrirtækja, auðhringanna, evrópsku og amerísku auðhringanna. Þetta er nýlendustefna á nýjan leik, og upp á hana skrifa ég ekki.

Að fara að kenna þetta og samsömun við þessa stefnu og þessi sjónarmið við alþjóðahyggju finnst mér ekki vera rétt. Ég vil hafa heiminn allan undir.