Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:12:38 (7782)

2002-04-18 14:12:38# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess að hæstv. forsrh. rifjar upp tíð hans í samstarfi við fyrrum hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh., vil ég vekja athygli á því að síðan eru liðin 11 ár. Sitthvað hefur gerst í henni Evrópu á þessum 11 árum.

Ég vil hins vegar nota ferðina og biðja afsökunar á að ég skyldi gleyma þeirri sögulegu staðreynd að hæstv. forsrh. varð formaður Sjálfstfl., ef ég man rétt, í mars 1991 og leiddi lokasprett baráttu Sjálfstfl. í þeim kosningum. Það er líka hárrétt hjá honum að með því formannskjöri varð nokkur áherslubreyting og Sjálfstfl. kom að vissu leyti til byggða í afstöðunni til Evrópu og EES. Forveri hans hins vegar talaði mest um tvíhliða samning. Það er kannski vegna þessa sem það veldur mér sérstökum vonbrigðum að hæstv. forsrh. og formaður Sjálfstfl., Davíð Oddsson, skuli vera á þessum stífu gormum þegar menn ræða þá möguleika í Evrópusamvinnunni sem við svo sannarlega þurfum að skoða.

Varðandi atbeina Alþingis og hugsanlega stjórnarskrárbreytingu fyrir samningaviðræður eða aðildarumsókn að Evrópusambandinu þætti mér vænt um að hæstv. forsrh. sýndi mér fram á það frá sérfróðum aðilum að til þessa þurfi að koma. Ég man ekki eftir einu einasta ríki í Evrópu sem fór í þá vinnu að breyta stjórnarskránni áður en til viðræðna var komið. Ég minnist þess ekki að Norðmenn hafi í tvígang breytt stjórnarskrá sinni fyrir fram ef til þess kæmi að samningar næðust. Það er þá alveg nýtt að það þurfi að gerast hér á hinu háa Alþingi Íslendinga. Ég er tilbúinn að hlusta og taka mið af nýjum upplýsingum ef hæstv. forsrh. hefur yfir þeim að ráða.