Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 17:24:31 (7799)

2002-04-18 17:24:31# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[17:24]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að bera af mér þær dylgjur sem hafa verið hafðar uppi. Mér finnst þær á slíku plani. Ég ætla ekki að gera það. Hins vegar fannst mér hv. þm. spyrja að þessu með málefnalegum hætti og ekki felast neinar dylgjur í málatilbúnaði hans varðandi það. Ég ítreka, eins og kom fram strax þegar þetta var sagt, að þetta hafði verið í undirbúningi í ráðuneytinu um alllangan tíma. Það hefur verið upplýst að þegar Sjálfstfl. og Alþýðuflokkur tóku til starfa árið 1991 var í vinnusáttmála, sem birtur var milli flokkanna, gert ráð fyrir að hluti af verkefnum Þjóðhagsstofnunar yrði þá þegar færður til. Mér dettur ekki í hug að hv. þm. Ögmundur Jónasson né hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þegar þeir lögðu til að færa stofnunina hingað undir þetta hús, ef svo má segja, hafi lagt það mál fram vegna þess að þeim mislíkaði við stofnunina eða treystu ekki þeim mönnum sem þar voru á ferðinni o.s.frv., að þar hafi annað gilt.

Sagan sýnir, m.a. ályktun Alþingis sjálfs frá 1987 sem þá var samþykkt, að menn sáu þá og vitanlega miklu fremur nú, það blasir við hverjum manni, að það fer fram tvíverknaður milli Þjóðhagsstofnunar annars vegar og Seðlabanka hins vegar. Það er einnig tvíverknaður í störfum Þjóðhagsstofnunar annars vegar og fjmrn. hins vegar. Eins fer fram tvíverknaður milli þessarar stofnunar og Hagstofunnar hins vegar. Það er algjörlega út í hött að viðhalda þeim tvíverkanði.

Í annan stað hefur hagfræðileg þekking ýmissa aðila hvarvetna í þjóðfélaginu vaxið verulega. Það hlutverk Þjóðhagsstofnunar, að uppfræða fávísan almenning eða fyrirtæki og félög, hefur gjörbreyst. Þann veruleika ættu menn að viðurkenna þótt þeir falli kannski í þá freistni að reyna að koma höggi á forsrh. en ég ber mig ekkert undan því.

En svona er þetta. Það er um tvíverknað að ræða. Þeim tvíverknaði þarf að hætta. Það verður örugglega farsælt þegar fram í sækir.

Fjmrn. hefur á undanförnum árum tekið meira mark á sínum eigin spám en Þjóðhagsstofnunar. Og það er þýðingarmikið að geta fjmrn. vaxi hvað þetta varðar.