Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 23:34:32 (7841)

2002-04-18 23:34:32# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[23:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi fá að nefna nokkur atriði úr ræðu hv. þm.

Ég nefndi sérstaklega til sögunnar ályktun Alþingis á sínum tíma vegna þess m.a. að ég vildi gefa mönnum til kynna varðandi ágiskanir á fyrri stigum máls hér í vetur, til að mynda þegar ég var í tví- eða þrígang spurður hvort ekki væri ágreiningur innan stjórnarflokkanna um að leggja niður Þjóðhagsstofnun, að tillaga þessi er samþykkt á Alþingi þegar Framsfl. fer með forsætið í ríkisstjórn og Þjóðhagsstofnun heyrir undir Framsfl. Ég býst því við að menn hafi áttað sig á því að það gæti ekki verið mikill ágreiningur um það atriði.

Annað sem ég vildi nefna varðandi það sem hv. þm. nefndi, af því við höfum rætt hér um hugsanlega samninga við Hagfræðistofnun Háskólans, er að ég er ekki að hugsa um þáttinn sem snýr að gögnum og slíkum upplýsingum. Ég tel að þau muni áfram fást frá Seðlabanka og Hagstofu og eftir atvikum fjmrn. Ég er frekar að hugsa um þann þáttinn sem Þjóðhagsstofnun hefur stundum séð um, að leggja mat á einstaka þætti og einstakar upplýsingar fyrir þing eða ríkisstjórnir eða aðra slíka aðila.

Varðandi reiknilíkönin þá var gerð grein fyrir því framsöguræðu hæstv. utanrrh. í allnokkrum mæli hvar tenging þeirra og framtíðarstaðsetning væri hugsuð. Ég vek athygli á því að þó við notum orðið reiknilíkan þá erum við kannski bara að tala um það sem krakkarnir kalla forrit í dag, sem miklu þægilegra og auðveldra að uppfæra en var hér forðum. Við þetta er því út af fyrir sig miklu léttara að eiga og ég tel að það sé ekki neitt umhendis að þessar stofnanir sem nefndar eru geti nýtt þau. Það hefur bæði komið fram að sjútvrn. mundi gera það í auknum mæli, heilbrrn. mundi gera það í auknum mæli og eins fjmrn. Það er auðvitað vitað að bæði Hagstofan og Seðlabankinn búa einnig yfir sambærilegum forritum, ekki alveg þeim sömu, en á sumum sviðum sambærilegum forritum og Þjóðhagsstofnun hefur búið við.