Löggilding nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:35:55 (8010)

2002-04-20 12:35:55# 127. lþ. 124.36 fundur 641. mál: #A löggilding nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum# (EES-reglur) frv. 69/2002, PHB
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil útskýra þann fyrirvara sem ég hef á þeirri brtt. sem hv. iðnn. gerir á þessu frv..

Ég tel að menn þurfi að fara mjög varlega í því að búa til ný starfsheiti, gefa þeim löggildingu og veita mönnum þannig ákveðinn rétt, vegna þess að um leið og menn eru komnir með ákveðið starfsheiti þá hafa þeir líka ákveðin réttindi. Og ef of mikið er af slíku dregur það úr samkeppni í atvinnulífinu.

Það er ljóst að þeir menn sem hér eftir munu kalla sig raffræðinga, sem er hugtak sem ég hugsa að velflestir Íslendingar skilji ekki hvað er, munu í krafti þess að Alþingi hafi samþykkt þessa tillögu gera kröfu til þess að sitja að ákveðnum störfum. Það þýðir að annað fólk sem hefur sambærilega menntun en getur ekki kallað sig raffræðinga og hefur hingað til getað sótt um þau sömu störf, megi það ekki. Þannig mun samkeppnin um þau störf minnka og atvinnulífið verða þrengra og í meiri viðjum og ekki eins lipurt að bregðast við breytingum. Þetta er er mjög vel þekkt og kom hér fram í umræðu áðan um Evrópusambandið, þar sem menn hafa verið að búa til mikið af réttindum og reglum og viðjum sem atvinnulífið er hneppt í. Það verður til þess að nýsköpun og kraftur í atvinnulífinu dofnar og upp kemur ákveðin stöðnun sem endurspeglast svo í atvinnuleysi sem ég held að flestir séu á að sé ekki æskilegur hlutur. Í Evrópusambandinu er atvinnuleysið viðvarandi, 10%, og er nánast litið á það sem náttúrulögmál.

Ég er á móti því að gera þessa, að mínu mati, óþörfu breytingu.