Framhald þingfundar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 14:56:56 (8039)

2002-04-20 14:56:56# 127. lþ. 124.93 fundur 532#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[14:56]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mér þykir ekki gott ef menn ætla að halda hér áfram í dag og hafa kvöldfund. Okkur hefur verið fyrirskipað, með þessari dagskrá, að klára með skömmum fyrirvara nefndarálit í mjög mikilvægum málum þannig að það hefur hálfvegis þurft að kasta til þess höndunum að skila því af sér. Síðan er greinilegt, miðað við það sem hér hefur verið látið uppi, að meiningin sé að vera hér í kvöld. Í dag er laugardagur og því afar erfitt að koma því við.

Ég veit um marga þingmenn sem hefðu vilja taka þátt í umræðum um sjávarútvegsmálin sem eru að fara að byrja og mér finnst slæmt að þeir skuli ekki fá tækifæri til að taka þátt í þeirri umræðu.

Síðan hef ég orðið var við að búið er að boða fundi í nefndum klukkan sex, a.m.k. í tveimur nefndum. Mér finnst það ekki ganga fyrir eins og er. Þar fyrir utan veit ég ekki til þess að nein dæmi séu um það nema við lok þings að menn hafi haldið kvöldfund á laugardögum. Ég fer fram á að þetta verði endurskoðað og menn séu ekki látnir standa hér fram eftir kvöldi til að fjalla um þetta mikilsverða mál. Þingmenn hafa greinilega gert ýmsar aðrar ráðstafanir í dag og ég óska eftir því að hæstv. forseti endurskoði fundaplanið eins og ég hef heyrt að hann hafi hugsað það.